Loading

Handbók 4 Mótið

4.1. Skipulag á mótinu

Til að nýta dagsbirtuna er fótaferð milli 5:00 og 6:00 á morgnana og byrjar dagurinn á því að útbúa morgunmat og nesti fyrir daginn. Síðan er farið í þá dagskrá sem hefur verið valin fyrir daginn og mikilvægt er að taka með dagsferðarpokann með því sem á að vera í honum.

Hópurinn kemur aftur í tjaldbúð milli 17:00 og 18:00 og þá fer eldhúsflokkurinn að undirbúa kvöldmat. Eftir kvöldmat er boðið upp á kvölddagskrá á tjaldbúðartorginu. Á kvöldin verða sveitarfundir þar sem farið verður í endurmat á deginum og farið yfir dagskrá morgundagsins. Það á að vera komin kyrrð á mótssvæðinu kl. 23:00.

4.1.1. Að skipuleggja daginn – okkar útfærsla

Hver sveit velur dagskrá fyrir daginn, en ekki hægt að skrá sig í dagskrá fyrirfram. Sveitarforingjar fylgja skátunum í dagskrá og hafa yfirsýn yfir hverjir eru í hvaða dagskrá. Í tjaldbúðum sveitanna verður yfirlitstafla sem sýnir dagskrárvalið, hvaða foringjar fylgja hvaða hópum, hvaða flokkur á eldhúsvakt og hvaða foringi er í tjaldbúð.

4.1.2. Ferðafélagar – skipulag

Félaga-skipulag verður alla ferðina okkar. Það þýðir að þegar verið er að ferðast, fara um mótssvæðið, fara í dagskrá eða í Washington þá á hver þátttakandi ALLTAF sinn “félaga”.

Skipulagið virkar þannig að t.d. þegar valið er í dagskrá kvöldið áður eru einnig valdir félagar næsta dag í dagskrá, þeir eiga að vera saman þangað til þeir koma aftur í tjaldbúð. Stundum velja þátttakendur sína félaga sjálfir og stundum sveitarforingjar. Mikilvægt er að vera opin/n fyrir því að vera félagar með öllum í sinni sveit.

En af hverju? Að ferðast með félaga getur komið í veg fyrir að þú týnist, gleymir dótinu þínu, passir upp á að fá þér að borða og drekka. Þetta er góð aðferð til að tryggja að þið skemmtið ykkur sem best á mótinu.

4.2. Dagskrá

Mikilvægt er að hver og einn sé búin að skoða dagskrárbæklinginn til að geta sagt sínar óskir um val á dagskrársvæðum.

4.3. Matur á mótinu

Matur er mannsins megin og öll vitum við að við þurfum að nærast vel til að halda okkur heilbrigðum á ferðalögum.

Skátasveitirnar munu “kaupa inn” og elda sinn mat sjálf. Skátunum verður skipt niður í eldhúsflokka sem sjá um að útbúa morgunmat og kvöldmat fyrir alla í sveitinni. Hádegismat tekur hver og einn með sér úr tjaldbúð í nesti fyrir daginn og borðar á dagskrársvæðum dagsins. Allir þurfa að sjá um sín mataráhöld og passa upp á að þau séu hrein og í lagi. Hreinlæti er mjög mikilvægt í öllu sem tengist mat.

Eldhúsflokkurinn ákveður (í samráði við hina í sveitinni) hvað er í kvöldmat og sér um að útbúa innkaupalista í sérstöku appi sem skátarnir hafa aðgang að. Foringinn fer yfir með þeim og flokkurinn fer svo í “búðina” til að “kaupa inn”. Þar eru vörurnar í mátulega stórum pakkningum sem hentar einni sveit. Kjöt er allt for-eldað til að gæta fyllsta öryggis. Eldhúsflokkurinn greiðir svo fyrir vörurnar í gegnum appið, en öllum sveitum er úthlutað punktum til að versla fyrir á hverjum degi. Vörurnar eru svo teknar heim í tjaldbúð og matur eldaður. Morgunmatur er sóttur í búðina að morgni og þá er einnig tekið með fyrir nesti dagsins. Á þennan hátt er mótið að koma til móts við mismunandi matarmenningu heims. Við í Evrópu borðum t.d. mun minna af hrísgrjónum en Asíubúar.

Búið er að gefa út hugmyndir að matseðlum og innkaupalista með þeim þannig að það á að vera auðvelt fyrir skátana að finna eitthvað við hæfi. Með matseðlunum fylgja svo ítarlegar leiðbeiningar um hvernig á að útbúa matinn.

Frekari leiðbeiningar og aðstoð fá skátarnir frá sveitarforingjum og fararstjórn.

4.3.1. Alþjóðleg matartjöld

Í miðbæ mótsins má finna veitingastaði sem rekin eru af fararhópum þjóða. Þar má kaupa sér mat líkt og á veitingahúsi eða kaffihúsi. Gaman er að kynnast matarmenningu annarra og hér er kjörið tækifæri til þess. Þjóðlegir réttir sem eru framreiddir af skátum.

Verð eru misjöfn og því eiga skátarnir alls ekki að gera ráð fyrir að borða þar nema hugsanlega einu sinni. Þá má t.d. nota dagskrárdaginn sem þau eru í miðbænum til þess. Eftirfarandi matartjöld verða á mótinu:

• Brasilía

• Kanada

• Chile

• Kólumbía

• Þýskaland

• Ungverjaland

• Ítalía

• Holland

• Portúgal

• Bretland

• Bandaríkin

4.3.2. Hreinlæti og matargerð

Mjög mikilvægt er að gæta hreinlætis við allan undirbúning og matargerð. Að elda í tjaldbúð er ekki eins og að elda heima í eldhúsi. Hér koma nokkur atriði sem fara þarf eftir:

1. Hreint: Gættu þess að þvo hendur þínar vel. Eins skal tryggja að öll áhöld sé hrein.

2. Skilja að: Gættu þess að meðhöndla ekki grænmeti og kjöt á sömu stöðum, ekki t.d. skera salatið á brettinu sem þú varst að skera kjúklinginn á. Þvoið vandlega öll áhöld á milli.

3. Elda vel: Gættu þess að maturinn sé full eldaður.

4. Geymsla: Enginn ísskápur er á svæðinu þannig að það er mikilvægt að “kaupa” ekki meiri mat en þarf hverju sinni. Við geymum ekki afgangana. Ef þið hafið ofáætlað innkaupinn má skila aftur á ákveðna staði og það verður nýtt fyrir þá sem minna mega sín í nágrannabæjum, t.d. gistiskýli og matargjafir til heimilislausra.

5. Frágangur: Diskar, bollar, hnífapör og áhöld skal þrífa strax að aflokinni máltíð til þess að komast hjá því að draga að skordýr, smádýr og jafnvel stærri dýr. Athugið að engan mat skal geyma í svefntjöldum!

Hægt verður að fá klaka til að setja í þar til gerð kælibox ef geyma þarf eitthvað í kælingu. Sá klaki er þó ekki ætlaður til manneldis og má alls ekki setja hann út í drykki!

Allir skátar eru ábyrgir fyrir sínum mataráhöldum. Gott er að útbúa poka úr viskustykki til að geyma áhöldin í á meðan þau eru ekki í notkun. Merkja þarf áhöldin því við erum aldrei viss um að enginn annar á eins.

4.3.3. Sorp og sorpflokkun

Skáti er náttúruvinur og að sjálfsögðu flokkum við sorpið. Í tjaldbúð verður hægt að flokka á tvo vegu, Svartir pokar fyrir rusl og glærir pokar fyrir endurvinnslu.

Við lok hverrar máltíðar skal ganga frá svarta ruslapokanum og fara með á þar til gerðan stað á torginu svo ekki verði matarafgangar í ruslapokanum á milli máltíða. Soð, feiti og uppvöskunarvatn má ekki hella niður í jarðveginn. Feiti þarf að setja í svarta ruslið og aðrir vökvar í þar til gerð niðurföll á svæðinu.

4.3.4. Fæðuóþol og fæðufrávik

Á mótinu er gert ráð fyrir öllu, bæði hvað varðar óþol og ofnæmi en einnig frávik af trúarlegum og/eða öðrum ástæðum svo sem Kosher, Halal, grænmetisætur, vegan og önnur frávik. Berum virðingu fyrir hvert öðru og reynum ekki að sannfæra aðra um að ykkar leið sé sú rétta. Fæðuofnæmi getur verið lífshættulegt og mun sveitarforingi upplýsa alla í sveitinni ef um bráðaofnæmi er að ræða því þá má stundum ekki einu sinni vera með matvælið nálægt viðkomandi eða matnum hans/hennar.

4.4. Mótssvæðið

Mótssvæðið er í eigu Boys Scouts of America og er landsmótssvæðið þeirra. Svæðið býður upp á fjölbreytta dagskrármöguleika, sérstaklega þegar kemur að ýmiskonar útivist.

Tjaldbúðarsvæðin eru sex talsins og kölluð A/B/C/D/E/F og hvert undirsvæði ber þá heiti sem fellur undir þessa bókstafi. Hvert þeirra skiptist í minni tjaldbúðareiningar með eigin þjónustukjörnum og tjaldbúðarstjórum.

Scott Summit Center er miðbæjarkjarni svæðisins og þar má m.a. finna eftirfarandi staði: AT&T Summit Stadium sem er stóra aðalsviðið en þar fara fram allir stærri viðburðir mótsins eins og mótssetning og mótsslit. Global Development Village – eða Alheimsþorpið, en þar geta þátttakendur tekið þátt í ýmiskonar dagskrá varðandi hnattræna þróun s.s. frið, mannréttindi, heilsu og umhverfismál. World Scout Center: þar má m.a. finna bækistöðvar tækniteymisins, skrifstofur fararstjórna og sýningarsvæði hinna ólíku landa. Íslenska fararstjórnin verður í sameiginlegu skrifstofutjaldi með hinum Norðurlöndunum og þar fer jafnframt Íslandskynningin fram.

The Adventure Zone er heitið á dagskrársvæðinu þar sem megnið af dagskránni fer fram, svo sem allt klettaklifur, hjólabrettagarðurinn, BMX brautin, háloftagarðurinn og Zip-línurnar.

4.5. Þjónusta á mótinu

Aðalbækistöðvar mótsins (HQ) eru staðsettar í Piggott HQ og eru opnar allan sólarhringinn. Þarna geta fararstjórnir og aðrir fengið aðstoð og svör við spurningum. Þátttakendum er þó alltaf bent á að tala fyrst við sveitarforingja, tjaldbúðarstjóra, fararstjórn eða starfsmenn mótsins áður en haft er samband við aðalbækistöðvar mótsins.

Gjaldmiðlar -Bankar - Hraðbankar: gjaldmiðill mótsins er Bandaríkjadalir ($USD) og í öllum verslunum og matartjöldum á mótssvæðinu er hægt að staðgreiða eða nota debet/kreditkort. Víða á mótssvæðinu má finna hraðbanka sem taka hefðbundin debit/kreditkort en ekki verður hægt að skipta gjaldmiðlum á mótinu.

Verslanir: Á mótssvæðinu eru þrjár minjagripaverslanir sem eru staðsettar í Gateway Village, Legacy Village og sú þriðja, sem eingöngu er ætluð fyrir starfsmenn og fararstjórnir, er staðsett á Ephesus-svæðinu. Búðirnar selja fjölbreytta minjagripi og merki, fatnað og útilegubúnað. Opnunartíminn er frá 08:00-18:00 nema í Ephesus-versluninni en hún er opin frá 08:00-13:00 og frá 17:00-22:00.

Hægt er skoða hluta af varningnum sem er til sölu á heimasíðu mótsins: https://2019-world-jamboree.myshopify.com/

Allsskonar matur og drykkur er seldur í litlum sjoppum, sem eru víða á mótssvæðinu og í alþjóðlegu matartjöldunum.

Póstþjónusta: Mótið býður upp á póstþjónustu og bæði hægt að senda póst og eins að fá póstsendingar. Sveitarforingjar sjá um að sækja póstinn og koma honum til viðkomandi.

Þar sem við erum ekki búin að fá staðfestingu á því í hvaða tjaldbúð við verðum staðsett er ekki hægt að gefa upp heimilisfang þátttakenda á mótinu að svo stöddu. Við setjum þessar upplýsingar inn á facebook síður sveitanna þegar nær dregur.

Á mótssvæðinu verða þrjú pósthús þar sem hægt verður að kaupa frímerki, umslög og einhverja minjagripi merkta mótinu. Mikilvægt er að setja nafn og heimilisfang sendanda á bréf og pakka, en ekki heimilisfang mótsins.

Tapað/fundið: þátttakendur þurfa að gæta vel að eigum sínum á svona stóru móti og mikilvægt að gæta þess að skilja ekki dagsferðarpokann eftir þegar farið er á milli dagskrárliða. Eins er mjög mikilvægt að merkja allan farangur með bæði nafni og fararhóp (Icelandic contingent) eins og fram hefur komið. Þá eru mun meiri líkur á því að ef maður gleymir eða týnir einhverju að það skili sér aftur. Eins getur verið gott að hafa myndina af mótsskilríkjunum, sem hvílumynd á símum og snjalltækjum, því þá er auðvelt að finna eigandann. Hægt verður að leita að óskilamunum í aðalbækistöðvunum (Pigott Jamboree HQ) og við Scott Summit Center. Opnunartíminn verður frá 08:00-18:00 alla mótsdaga. Munið að Skáti er heiðarlegur og til þess að geta endurheimt dýra muni og raftæki þarf að geta fært sönnun á eignarhaldi og undirrita skjal við mótttöku.

4.6. Mótssöngur

Að þessu sinni var haldin samkeppni um mótssönginn og gátu skátar um allan heim sent inn lög í keppnina. Í september 2018 voru svo valin út nokkur lög og almenningur gat kosið á milli þeirra. Úrslitin voru svo tilkynnt í apríl 2019 og var það Jess W. úr breska fararhópnum sem vann keppnina. Það verður gaman að heyra lagið í endanlegri útgáfu á mótinu.

4.7. Þráðlaust net og að hlaða tæki

Þar sem mikið af upplýsingum koma fram í Jamboree smáforritinu er búið að koma upp þráðlausu neti á helstu dagskrársvæðum, tjaldbúðum og við stóra sviði‘ til að þú getir séð hvað er um að vera eða sent þínu fólki myndir af því sem er í gangi á mótinu. Þetta net er frítt fyrir alla. Bandaríkin eru ekki hluti af fjarskiptasamningi sem gerður hefur verið í Evrópu til lækkunar á fjarskipta kostnaði á ferðalögum, því mælum við með því að þú hafir síma þinn á “Mobile data off” til að fá ekki stóran reikning þegar heim kemur. Svæðið er líka með þokkalega dreifingu á GSM sambandi og sér AT&T um það. Þeir mun selja símakort á svæðinu fyrir þá sem vilja.

Til að geta notað þessi raftæki þarf að hlaða þau, á svæðinu eru tenglar til að komast í rafmagn fyrir hleðslutækin, til að geta nota‘ þá veður þú að koma með þitt hleðslutæki, breytistykki yfir í kló fyrir Ameríku og snúru sem passar í þitt tæki. Enginn vörður er við hleðslustöðvarnar svo þú verður að passa þitt tæki. Við mælum með að hafa með sér hleðslubanka og vera dugleg/ur að setja í hleðslu þegar tækifæri gefst.

4.8. Smáforrit

Til að komast að því hvað er um að vera í kringum þig er gott að ná sér í Jamboree smáforritið. Í þessu forriti eru nýjustu upplýsingar um það sem er í gangi, kort, opnunartími á dagskrá, veður og svo margt fleira. Í smáforritinu er einnig hægt að finna fjarlægðir milli staða og tíma sem það getur tekið að koma sér á milli staða.

Tengill á smáforritið verður settur inn þegar hann er tilbúinn.

Alla morgna um kl. 6:30 mun verða sendur út tölvupóstur með fréttabréfi um helstu upplýsingum fyrir daginn, gott er að skoða þetta vel því kannski gæti þetta haft áhrif á dagskrána sem þú varst búin/n að gera.

Einnig er gott að allir sem eru með snjallsíma séu með Innkaupa-appið í símanum sínum.

Tengill verður settur inn þegar hann er tilbúinn.

4.9. NOVUS

Þegar komið er á Alheimsmótið færðu armband sem þú þarft að bara allan tíma meðan mótið er. Þetta armband er nafnspjaldið þitt og þar eru mikilvægar upplýsingar um þig ef eitthvað gerist. Armbandið gefur þér einnig tækifæri á að taka þátt í dagskrá. Þú getur fylgst með hvað þú ert búin/n að prófa og getur eftir mótið sýnt þeim sem heima eru hvaða dagskrá þú fórst í.

Með Novus armbandinu getur þú haldið utan um þá nýju vini sem þú hefur eignast. Þið leggið armböndin ykkar saman og ýtið á takann og þannig er skipst á upplýsingum. Þú getur ráðið hve mikið af upplýsingum um þig þú skiptir gefur.

Hver og einn þarf að sækja appið og útbúa aðgang með upplýsingum um sig.

Tengill verður settur inn þegar hann er tilbúinn.

Í dagskrá, sýningartjöldum og öðrum viðburðum gefst þér tækifæri á að sækja þér rafræn merki með því að bera armbandið að þar til gerðum skynjurum. Á sumum stöðum færð þú svo merki ef þú hefur lokið ákveðum hluta af dagskránni á því svæði.

4.10. Íslandskynning

Eins og fram hefur komið verður íslenska fararstjórnin með sameiginlegar höfuðstöðvar og sýningarsvæði með hinum Norðurlöndunum í World Scout Center. Þarna gefst þátttakendum á mótinu kostur á því að kynnast Norðurlöndunum og skátastarfinu þar. Það er gert með því að leysa fjölbreytt verkefni sem mörg hver tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og taka þátt í ýmsum leikjum á svæðinu. Þannig geta þátttakendur eignast The Nordic Badge.

Íslensku sveitirnar skiptast á að taka vaktir við Íslandskynninguna, segja frá skátastarfi á Íslandi, kenna örnámskeið í íslensku og leiðbeina við verkefnavinnu. Sveitirnar fá líka tækifæri til þess að skoða Alþjóðakynningar frá öðrum löndum.

4.11. Alþjóðadagur

Alþjóðadagurinn er föstudaginn 26. júlí og þá bjóða þjóðirnar upp á veitingar og skemmtun í sinni tjaldbúð. Við ætlum að bjóða upp á íslenska kjötsúpu sem hver sveit eldar á sínu tjaldbúðarsvæði. Gestir fá fræðslu um norræna goðafræði og íslenska rúnaletrið og geta búið til armband með nafninu sínu með rúnaletri. Þarna geta sveitirnar boðið upp á ýmiskonar þjóðleg skemmtiatriði t.d. söng, dans, glímu eða eitthvað annað sem þeim dettur í hug. Skátarnir skiptast á að taka á móti gestum í tjaldbúð og heimsækja aðrar þjóðir.

Skjal þetta er útbúið af farastjórn WSJ 2019 með fyrirvara um breytingar og verður uppfært ef þörf krefur.

Credits:

Created with images by tejasp - "wifi wireless device wi fi" • Seth Macey - "untitled image"

Report Abuse

If you feel that this video content violates the Adobe Terms of Use, you may report this content by filling out this quick form.

To report a copyright violation, please follow the DMCA section in the Terms of Use.