Fréttabréf 10.ÁB Nóvember og desember 2016

Komið þið sæl og blessuð. Nú eru börnin okkar að hefja lokasprettinn í grunnskólanámi sínu og halda í dag inn í jólafríið í síðasta skipti sem grunnskólanemendur. Við höfum brallað margt og mikið síðustu 2 mánuði og ætla ég að stikla á stóru í því sem hefur gerst hjá okkur.

Fyrst vil ég byrja á að þakka fyrir góðan foreldraviðtalsdag. Það er frábært að fá að vera þátttakandi í leik og starfi þessara krakka. Þau hafa þroskast mikið og hafa tekið miklum framförum og erum við gríðarlega ánægð með þau og ykkur.

Ánægðir veislugestir

Við smelltum okkur í fertugsafmæli á dögunum þar sem krakkarnir unnu að verkefni sem miðaðið við það að þau væru að halda sameiginlega upp á afmælið sitt og héldu tækifærisræður um hvert annað. Þetta var góð æfing í að koma fram og gott innlegg í reynslubankann hjá þeim. Mörgum fannst þetta erfitt eins og við var að búast en allir komust óskaddaðir frá þessu.

Góðar veitingar

Krakkarnir hafa komið að nokkrum verkefnum síðustu 2 mánuði og má þar helst telja umsjón með árshátíð miðstigs, þar sem þau voru sminkur, miðasölufólk, kynnar, tæknimenn og sviðsmenn. Voru þau mjög dugleg þar og okkur til sóma eins og við var að búast. Jólabingó var haldið á dögunum og tókst það mjög vel. Við munum svo endurtaka leikinn þegar líða fer að páskum.

í gær fórum við svo í lokahnykkinn á stóru verkefni sem við höfum verið að vinna að. Þau hafa verið að læra að búa til ferilskrá og hvernig á að bera sig að í atvinnuviðtölum og enduðum við verkefnið á að fara í ráðhúsið. Þar tók starfsfólk fjölskyldusviðs á móti okkur og tók krakkana í alvöru atvinnuviðtöl. Það gekk vonum framar og voru þau mjög ánægð með hvernig krakkarnir komu fram. Eftir það fórum við í bakaríið og héldum upp á að verkefninu væri lokið.

Fjör í bakaríinu

Við hittum vinabekkinn okkar í 5.bekk á Olweusardeginum og unnum með þeim að gerð forvarnarmyndbanda um einelti sem síðan voru sýnd þegar við hittumst aftur í jólakortagerðinni. Það er gaman að sjá hvað krakkarnir taka hlutverki sínu sem vinabekkur alvarlega og eru góð fyrirmynd fyrir þau yngri.

Í dag héldum við svo upp á litlu jólin í síðasta skipti. Við fórum í salinn og dönsuðum í kringum jólatréð með vinabekknum áður en við fórum upp í stofu í pakkaskipti og skemmtinefndin hélt uppi stuðinu. Einnig prófuðum við í fyrsta skipti að senda út útvarpsþátt í beinni fyrir skólann og tókst það með miklum ágætum. Síðan var haldið út í langþráð jólafrí með bros á vör.

Við viljum minna á að krakkarnir hafa verkefni yfir jólin sem felast í því að þau eru "pokadýr" í Skaffó. Þau eru búin að raða sér á vaktir sem hægt er að sjá á FB síðu bekkjarins. Það er mikilvægt að þið hjálpið þeim að muna hvenær þau eiga að vera á vakt. Einnig eiga þau að mæta á jólaball Lions, 28.desember og hjálpa til þar.

Að lokum viljum við senda ykkur okkar bestu óskir um góð og gleðileg jól. Takk fyrir árið sem er að líða og sjáumst hress á nýju ári sem á eftir að bera með sér ný ævintýr og upplifanir. Jólakveðja, Bergmann og Álfhildur

Made with Adobe Slate

Make your words and images move.

Get Slate

Report Abuse

If you feel that this video content violates the Adobe Terms of Use, you may report this content by filling out this quick form.

To report a Copyright Violation, please follow Section 17 in the Terms of Use.