Loading

Kynfræðsla 8. bekk Kynfæri karla og kvenna

Á þessari síðu ætla ég að fjalla um kynfræðslu fyrir 8. bekk þar sem áherslan er eins og ég var búin að segja ykkur á líffræðilegu hliðina, kynfæri karla og kvenna, blæðingar og þær breytingar sem verða á líkamanum við kynþroskann.

Táknin sem þið sjáið hér á bakgrunnsmyndinni eru tákn sem oft eru notuð fyrir karlkyn og kvenkyn. Ég mun líka nota þau þannig.

Merki kvenkyns
merki karlkyns

Ef við gefum okkur nú að táknin hér fyrir aftan merki sambönd. Hvernig sambönd er þá verið að tákna?

Íslendingar geta stært sig af því að vera meðal þeirra þjóða sem hvað lengst eru komnir í að viðurkenna rétt samkynhneigðra, en hvað er kynhneigð ? Við fjöllum betur um það þegar við komum lengra á síðunni.

Nú eruð þið á þeim aldri að með ykkur er farin að vakna forvitni um kynlíf, hvað það er og hvernig sé að stunda það. Það er hægt að verða sér úti um upplýsingar á margan hátt en það er gríðarlega mikilvægt að vera meðvitaður/meðvituð um að það er ekki allt satt og rétt sem sagt er. Þegar þið aflið ykkur upplýsinga á netinu skuluð þið reyna að nota síður sem eru örugglega að veita réttar upplýsingar. Hér að neðan eru slóðir á tvær slíkar, og seinna set ég inn fleiri.

Kynfæri

Kynfæri beggja kynja skiptast í innri og ytri kynfæri.

Innri kynfærin eru inni í fólki og sjást ekki en ytri kynfærin eru utan líkamans og sjást þar. Þetta er svolítið líkt og öndunarfærin. Nefið er utan á og sést en lungun eru inni í líkamanum og sjást ekki.

Kynfæri karla og kvenna eru ólík en hafa þó sama tilgang það er að fjölga mannkyninu með því að eignast afkvæmi.

Kynfæri kvenna

Innri kynfærin

Innri kynfæri kvenna eru flókin því þeim er ætlað að framleiða egg og taka á móti frjóvguðu eggi auk þess sem í þeim vex fóstur þar til það er orðið tilbúið til að fæðast.

Innri kynfæri konu

Innri kynfærin samanstanda af tveimur eggjastokkum þar sem egg þroskast, eggjaleiðara sem liggur frá hvorum eggjastokk. Legi, þar sem fóstur þroskast ef getnaður á sér stað. Leghálsinn lokar leginu að neðanverðu og liggur ofan í leggöngin en þau hafa síðan ytra op út úr líkamanum.

Í leginu festist frjóvgað egg og breytist smátt og smátt í fóstur sem stækkar þar og þroskast.

7 vikna fóstur inni í leginu tengt við blóðríkan vef legsins

Veggir legsins eru úr blóðríkum vef sem hefur það hlutverk að færa fóstrinu næringu og súrefni. Ef ekkert egg frjóvgast og festist í leginu þá losnar innsta blóðríka lagið innan úr leginu og lekur burt í gegn um leggöngin. Það eru kallaðar blæðingar eða að vera á túr. Þegar legið hefur hreinsað sig á þennan hátt byrjar aftur að myndast nýtt blóðríkt lag innan í leginu sem undirbýr sig undir að taka á móti nýju eggi. Þessi hringrás endurtekur sig aftur og aftur, og tekur u.þ.b. mánuð.

Blæðingar

Ytri kynfæri kvenna

Dæmi um ytri kynfæri kvenna

Hér má sjá helstu líffærin í kynfærum kvenna. Snípurinn sem er efst á myndinni er lang viðkvæmasta svæðið á líkama hverrar konu. Á snípnum finnast 120 þúsund taugaendar samanþjappaðir á litlum bletti. Það er því mikilvægt að fara varlega í kring um það svæði. Ytri og innri skapabarmar umlykja leggangaopið. Öll þessi svæði eru næm fyrir snertingu og mikilvægt að fara varlega að öllu svæðinu en þrátt fyrir það er mjög mikilvægt að hreinsa allt svæðið vel og reglulega. Munið samt að nota ekki sterkar sápur, heldur er í nánast öllum tilfellum nóg að nota hreint vatn.

Myndin hér að ofan sýnir ytri kynfæri kvenna, þið verðið samt að hafa í huga að ytri kynfærin geta haft margskonar útlit og það er alfarið eðlilegt að konur séu með ólíkar píkur rétt eins og að vera með ólík eyru.

Mismunandi útlit ytri kynfæra

Sú tíska hefur rutt sér til rúms á síðustu árum að konur fjarlægi skapahár af kynfærum sínum. Upphaflega kemur sú tíska úr klámi, þar sem þykir mikilvægt að myndavélin nái sem nákvæmustum myndum af kynfærunum. Ef stelpur taka þá ákvörðun að fjarlægja skapahár er mikilvægt að vera viss um að vera ekki að gera það til að þóknast öðrum eða til að elta tísku. Skapahárin veita ákveðna vernd fyrir ýmsum sýkingum svo sem sveppasýkingum. Ef þessi ákvörðun er tekin er afar mikilvægt að velja aðferð sem veldur sem minnstum skaða.

rakstur

Rakstur með rakvél skilur húðina eftir mjög opna fyrir árásum baktería og mikilvægt er að gæta hreinlætis og nota ekki rakvél sem notuð er á önnur svæði líkamans. Eftir rakstur byrja hárin strax að vaxa aftur og eftir nokkurn tíma er hætta á að húðin verði gróf og hárin stífari.

háreyðingar krem

Háreyðingakrem eru sterk efni sem þarf að nota varlega. Mjög mikilvægt er að fara algerlega eftir leiðbeiningum á pakkningum og alls ekki hafa efnið lengur á húðinni en þar segir. Þessi efni geta brennt húðina illa og sumir hafa ofnæmi fyrir þeim. Hár byrja ekki að vaxa aftur fyrr en að nokkrum tíma liðnum u.þ.b. 10 - 14 dögum.

Vax

Vax meðferð. Við vax meðferð er bráðið vax borið á hárin og því síðan kippt burt eftir að það storknar. Hárin festast í vaxinu og rifna frá húðinni upp úr hársekknum. Þetta ætti enginn að ráðast í að gera sjálfur á jafn viðkvæmum stað og kynfærin eru. Ef þessi leið er valin er mikilvægt að leita til fagaðila.

Inngróin hár.

Þegar hár eru fjarlægð getur það gerst að húðin lokist fyrir ofan hársekkinn og þegar hárið byrjar að vaxa aftur þá kemst það ekki í gegn um húðina. Þetta getur valdið miklum óþægindum jafnvel sársauka en þar að auki eykst hætta á að bakteríur nái að valda sýkingu við hárið.

Hverjum er ekki sama ?

En hafið fyrst og fremst í huga hvað liggur að baki þeirrar ákvörðunnar að fjarlægja þessi hár og spyrjið ykkur: "Fyrir hvern er ég að þessu ?" Flestum öðrum er alveg sama og ef svarið er hópþrýstingur þá er mikilvægt að hafa næga sjálfsvirðingu til að hunsa álit annarra og gera það sem maður telur í raun vera fyrir bestu. Stundum heyrast þau rök að hárin séu fjarlægð í hreinlætisskyni en það er af og frá, hárin þjóna þvert á móti hlutverki sínu við að skýla og vernda þetta viðkvæma svæði.

Innri kynfæri karla

Innri kynfærin

Þó stór hluti kynfæra karla séu utan líkamans þ.e. typpið og pungurinn þá er mikilvægt að þekkja hvað er innan í líkamanum líka.

Eins og hjá konum er þvagblaðran undir lífbeininu. Frá henni liggur þvagrásin í gegn um typpið og út um kónginn. Fyrir neðan þvagblöðruna er blöðruhálskirtillinn en hann er viðkvæmur kirtill sem kemur að myndun sæðisvökvans. Með aldrinum getur hann stækkað og þá getur myndast hætta á að í honum þróist krabbamein. Allir karlmenn ættu því að kunna að þreifa á kynfærum sínum og þekkja hvort um stækkun sé að ræða.

Rétt neðan við Blöðruhálskirtilinn er sáðblaðran þar sem framleiddur er vökvi sem einnig fer í sáðvökvann. Ýmislegt bendir til þess að það sé einmitt þessi hluti vökvans sem hjálpar sáðfrumunum að verða frjóar og þannig færar um að komast inn í eggfrumuna og frjóvga hana.

Eista og eistnalyppa ásamt sáðrás

Niðri í pungnum eru svo eistun. Þau eru tvö og ofan á þeim eru eistnalyppurnar. Í eistunum eru sáðfrumur framleiddar í miklu mæli sérstaklega fyrst eftir kynþroskann. Ástæða þess að þau eru staðsett í pungnum utan við líkamann er sú að framleiðsla sáðfruma gengur best við hitastigið 35°C og eins og þið vitið þá er líkamshitinn okkar 37°C svo með því að vera utan við líkamann næst besta hitastigið. Nýju sáðfrumurnar fara síðan frá eistunum og yfir í eistnalyppurnar þar sem þær bíða næsta sáðláts. Ef einhverjir dagar líða frá framleiðslu sáðfrumu án þess að sáðlát verði þá eru elstu frumurnar teknar í sundur og endurnýttar við gerð nýrra sáðfruma í eistunum.

Innri kynfæri karla

Frá eistnalyppunum liggur síðan sáðrásin sem sáðfrumurnar ferðast eftir á leið sinni út úr líkamanum. Sáðrásirnar, ein frá hvorri eistnalyppu, koma saman og sameinast bak við þvagblöðruna, á þeim punkti sameinast þær einnig við rás frá sáðblöðru en úr henni kemur töluverður hluti þess vökva sem myndar sæðið og sáðfrumurnar synda í. Leiðin liggur síðan áfram í gegn um Blöðruhálskirtilinn þar sem enn bætist í vökvann, en að lokum liggur leiðin niður þvagrásina og út um typpið.

Ytri kynfæri karla

Ytri hluti kynfæra hjá körlum er mun auðsjáanlegri en hjá konum því eru karlar oftar mun betur meðvitaðir um útlit kynfæra sinna og þekkja þau betur en konur.

Ytri kynfærin typpi og pungur

Fremsti hluti typpisins kallast Kóngur og utan um hann er laus húð sem kallast forhúð. Í sumum samfélögum tíðkast að skera burt forhúðina við athöfn sem kallast umskurður. Þetta er oftast gert af trúarlegum ástæðum. Á Íslandi er það frekar óalgengt að fjarlægja forhúðina nema ef eitthvað er athugavert við hana, hún t.d. of þröng. Sumstaðar er talað um að þetta sé gert af hreinlætisástæðum en það er af og frá. Vissulega þarf að gæta hreinlætis með þennan líkamspart og þvo reglulega en passið þó að svæðið er viðkvæmt og ekki er þörf á sterkum sápum, hreint vatn dugar vel.

Fyrir og eftir umskurð

Typpið er gert út nokkuð flóknum vef sem hefur svipaða eiginleika og svampur. Þessi vefur virkar eins og sést á myndinni hér að neðan.

Efri myndin sýnir typpi í slakri stöðu, þar er svampvefurinn samandreginn. Á neðri myndinni hefur typpið orðið fyrir örvun og blóð flæðir inn í svampvefinn og hann bólgnar út.

Typpi hjá strákum eru mismunandi útlits ekki síður en píkur hjá stelpum. Oft er það svo að strákar hafa minnimáttarkend gagnvart vinum sínum ef þeim finnst typpið sitt vera minna en hjá hinum eða bogið eða hvað annað sem menn ímynda sér að sé að. Staðreyndin er hinsvegar sú að þó typpi í slakri stöðu séu mjög mismunandi að stærð og lögun, verða flest þeirra af svipaðri stærð í reisn, s.s. "lítil typpi lengjast mest" eins og segir í gömlu dægurlagi "Heilræðavísum Stanleys" sem þið getið hlustað á hér að neðan.

Mismunandi typpi hjá körlum.

Hreinlæti er eins og áður hefur komið fram afar mikilvægur þáttur eftir kynþroskann. Vegna aukinnar virkni svitakirtla og aukinnar fitumyndunnar í húð fjölgar bakteríum sem lifa á húðinni, þær taka að mynda lyktarefni sem veldur því sem við köllum oftast svitalykt. Það er mikilvægt að þvo vandlega öll svæði sem hár hafa vaxið á ekki sjaldnar en annan hvorn dag og alltaf eftir erfiðar líkamsæfingar þar sem menn svitna. Ekki er sérstök þörf á að nota sterka sápu í hvert skipti en nota þarf sápu öðru hvoru.

Ytri breytingar

Líkami okkar tekur töluverðum breytingum við kynþroskann. Sumar þessara breytinga byrja fyrir kynþroskann og sumar halda áfram í nokkurn tíma eftir að flest önnur einkenni kynþroskans hafa horfið.

Líkamlegar breytingar hjá stelpum

Hjá stelpum eru stærstu breytingarnar þær að brjóstin byrja að vaxa og mjaðmirnar breikka.

Líkamlegar breytingar hjá strákum

Hjá strákum eru það herðarnar sem breikka og eistun sem stækka en um leið er algengt að pungurinn utan um eistun dökkni.

Bæði kyn fá síðan hár á áður hárlausa staði s.s. undir hendur, á kynfærin og fótleggina. Margir strákar fá síðan einnig hár á bringu og jafnvel bak, þó það gerist venjulega ekki fyrr en undir lok kynþroskans jafnvel ekki fyrr en eftir tvítugt, og ekki má gleyma því að þá byrjar strákum líka að vaxa skegg.

Á þessari mynd sést barkakýlið í samspili við önnur líffæri.

Ósýnilegu breytingarnar eru hinsvegar þær að röddin breytist bæði hjá strákum og stelpum, en þó mun meira hjá strákum sem eiga oft erfitt með að ná valdi á þessari nýju rödd, sem vill bresta og breyta um tónhæð alveg af sjálfsdáðum, það tímabil er kallað að vera í mútum. Ástæða þessarar raddbreytingar hjá strákunum er að barkinn á þeim stækkar mikið og verður sýnilegur utan á hálsinum sem barkakýli eða adamsepli, um leið lengjast raddböndin sem eru inni í barkanum og röddin verður dýpri.

Aðrar breytingar

Vegna mikils hormónaflæðis, sem veldur öllum þessum líkamlegu breytingum sem hér hefur veirð rætt um, verða einnig miklar andlegar breytingar.

Einstaklingurinn er að breytast úr barni í fullorðinn og þá breytist svo margt, líka í því hvernig menn hugsa og hegða sér. Þessar breytingar verða ekki á einu augabragði heldur gerast smátt og smátt og oft getur verið erfitt að sætta sig við þann nýja líkama sem maður er skyndilega orðinn hluti af. Stundum vaxa líkamshlutar líka mis hratt og allt í einu er nefið kannski orðið tveimur númerum of stórt, eða allir skór orðnir allt of litlir á öðrum fætinum.

Þetta veldur óöryggi og vanlíðan hjá mörgum unglingum og mjög margir eru óánægðir með eigið útlit. Auk þess eru flestir svo uppteknir af eigin göllum að þeir verða sannfærðir um að allir aðrir taki líka eftir þeim og helst engu öðru.

Hluti af þessari vanlíðan er tilkominn vegna stöðugs samanburðar við hið fullkomna útlit sem við erum mötuð á í gegn um tískublöð, tónlistarmyndbönd, samfélagsmiðla (facebook, twitter, instagram og snapchat svo nokkrir séu nefndir) og allskonar þætti. Við vitum svo sem öll að það eru notaðar allskonar brellur til þess að láta þá sem sjást á þessum miðlum líta svona út en samt læðist að manni tilfinningin um að maður ætti nú að vera meira svona eða hinsegin til að verða hamingjusamur. Eða eins og fræg fyrirsæta, Cindy Crawford sagði einu sinni þegar hún var að fletta tískublaði " mikið vildi ég að ég liti út eins og Cindy Crawford".

Cindy Crawford

En svona lítur enginn út ekki einu sinni fyrirsætan sjálf. Hér sjáið þið stutt myndband um það hvernig svona myndir eru gerðar.

Hér er annað myndband sem sýnir þegar gengið er of langt í öllum þessum breytingum þannig að útkoman verður meira en bara óeðlilega falleg, heldur hreinlega fáránleg.

Sjálfsmyndin er eitt af því sem mótast að miklu leiti á unglingsárunum og því er mikilvægt að vera meðvitaður um að láta ekki undan utanaðkomandi pressu eða kröfum um útlit. Þess í stað er skynsamlegra að beina áhuga sínum og athygli að því sem skiptir máli og hægt er að hafa áhrif á. Þú getur t.d. ekki breytt bilinu á milli augna þinna en þú getur hugsað vel um líkama þinn með því að passa upp á það hvað þú borðar ( stilla sætindum í hóf) og það að fá næga hreyfingu til að viðhalda góðri heilsu.

Sjálfsmyndin byrjar snemma að myndast.

Persónuleiki einstaklingsins þroskast mikið á unglingsárunum og það er eitt af því sem þú getur haft áhrif á. Ákveddu hverskonar manneskja þú vilt vera og æfðu þig í að vera þannig. Ef þú vilt vera góð manneskja þá þarftu að æfa þig í að koma fram við aðra af góðmennsku, tala fallega um og við aðra og láta ekki draga þig inn í að gera hluti sem ekki endurspegla þann persónuleika sem þú villt hafa, t.d. með baktali eða ljótum ummælum.

Hvort er það innrætið eða útlitið sem skiptir máli ?

Blæðingar

Algengast er að stelpur byrji að hafa blæðingar svolítið eftir að kynþroski hefst, þ.e. að líkamlegu breytingarnar byrja.

Oft eru blæðingarnar óreglulegar til að byrja með, geta komið oft eða sjaldan, en smám saman oftast á fyrstu tveimur árunum kemst regla á og hjá flestum konum verða blæðingar u.þ.b. mánaðarlega í 3-5 daga.

Það er hinsvegar ekki óeðlilegt að blæðingar komi oftar eða sjaldnar og vari í styttri eða lengri tíma en meðaltalið segir til um.

Hlutir sem geta hjálpað við mikla verki.

Stundum fylgja blæðingum krampa verkir í leginu sem geta verið mis slæmir. Flestar stelpur finna ekki mikið fyrir blæðingum og þær há þeim ekki í daglegum störfum. Sumar stelpur fá hinsvegar mikla verki sem þarf jafnvel að slá á með verkjalyfjum. Þar ætti þó að hafa í huga að venjulega er betra að slá á verkina t.d. með hreyfingu.

Blæðingar stoppa stelpur / konur ekki í að sinna daglegum störfum nema í mjög fáum undartekningar tilfellum. Þið skuluð hafa það í huga að hreyfing er í flestum tilfellum gagnleg og bæði minnkar verki og hjálpar leginu til að losa hraðar um blóðið og hreinsa sig betur.

Þegar blæðingar eru orðnar reglulegar er talað um tíðarhring, en það er tímabilið frá einum blæðingum og að þeim næstu.

tíðarhringurinn

Tíðarhringurinn byrjar á fyrsta degi blæðinga og skiptist í 5 tímabil.

1. tímabil: Blæðingar, varir að meðaltali í 3-5 daga en getur verið styttra eða lengra án þess að nokkuð sé athugavert við það.

2. tímabil : Frá fyrsta degi blæðinga og í u.þ.b. 12 daga. Hormónaframleiðsla eykst í heiladinglinum og egg tekur að þroskast í eggjastokk. Í leginu byrjar slímhúðin að þykkna á nýjan leik eftir blæðingarnar.

3. tímabil: u.þ.b. frá 12 til 16. dags. Á þessu tímabili verður oftast egglos og þá eru mestar líkur á getnaði ef stúlkan er farin að stunda kynlíf. Hafið þó í huga að ef blæðingarnar eru enn óreglulegar þá er ekki hægt að reikna út hvenær egglos verður og eins geta sáðfrumur lifað inni í eggrásinni í nokkra daga, þannig að þetta er ekki eini tíminn sem getnaður getur orðið.

4. tímabil: Eggið rúllar niður eggjaleiðarann frá eggjastokknum og niður í legið. Þessi ferð tekur rúmlega viku og hvenær sem er á þeirri leið getur eggið frjóvgast ef það hittir sáðfrumu á leiðinni.

5. tímabil: 20. - 28. dagur, ef eggið hefur ekki frjóvgast þá rúllar það niður legið og út í gegn um leggöngin án þess að nokkur verið þess var. Eggjastokkarnir minnka hormónaframleiðslu sína og þá tekur blóðríka slímhúðin í leginu ( sem var að myndast á 2. tímabili) að þynnast og að lokum losnar hún frá og blæðingar hefjast aftur og nýr hringur byrjar.

önnur mynd af tíðarhring

Hreinlæti

Hreinlæti er mjög mikilvægt meðan á blæðingum stendur. Allar stelpur ættu að skipta regluleg um bindi burtséð frá því hvort það er orðið mjög fullt eða ekki. Ef notaðir eru tappar þá er afar mikilvægt að nota þá aðeins í stuttan tíma í einu t.d þegar farið er í sund ( það þarf þó alls ekki að nota neitt í sundi), og EKKI sofa með þá.

bindi og tappar

Í dag er farið að búa til margnota bindi sem hægt er að þvo og nota aftur og aftur. Þau eru mun umhverfisvænni og til lengri tíma litið ódýrari lausn en einnota bindin. Einnig eru til svokallaðir álfabikarar en það er bikar úr gúmíi sem settur er upp í leggöngin og tekur við blóðinu. Með reglulegu millibili yfir daginn er bikarinn fjarlægður og hellt úr honum og hann skolaður og síðan komið fyrir aftur.

álfabikarinn
Leiðbeiningar um uppsetningu álfabikars

Einnota bindi og tappar eru nýlegar uppfinningar en þó þær séu þægilegar þá ættum við að hafa í huga að þetta eru ekki umhverfisvænir kostir.

Report Abuse

If you feel that this video content violates the Adobe Terms of Use, you may report this content by filling out this quick form.

To report a Copyright Violation, please follow Section 17 in the Terms of Use.