Loading

Handbók 3 Öryggis- og heilbrigðismál

Farðu vel með þig!

Það er mikilvægt að við hugsum vel um okkur sjálf á mótinu. Hluti þess er hvernig við undirbúum okkur fyrir daginn. Mikilvægt er að pakka því sem við þurfum og gæta vel að því hvernig okkur líður. Vinsamlegast lestu eftirfarandi leiðbeiningar vel svo að þú fáir sem allra mest út úr ferðinni.

3.1. Vatn

Vatnið er mikilvægasti hluti þess að líða vel og forðast veikindi og vanlíðan. Það getur orðið mjög heitt á mótinu og þú munt vera á hreyfingu allan daginn. Mótið setur það sem skyldu að allir séu með tvær vatnsflöskur, til að eiga ávallt vatn til vara, gott að fylla ávallt á vatnsflösku þegar hin tæmist. Þetta gildir jafnt fyrir almenna þátttakendur, IST og foringja. Hægt er að kaupa viðbótar flöskur í mótsverslunum.

Á mótssvæðinu er mjög víða að finna vatnsstöðvar. Þær eru vel merktar og eiga að vera vel greinilegar, mikilvægt að láta þær ekki fram hjá sér fara. Það er enn fremur vatnskrani á bakhlið hvers sturtuhúss og þar getur þú fyllt á vatnsflöskuna þína.

Mótið gefur leiðbeiningar um vatnsþörf miðað við veður og rakastig, mikilvægt er að fylgja þessum leiðbeiningum. Jafnvel þótt þú finnir ekki fyrir þorsta þá þarf líkami þinn á vatninu að halda til að bæta upp vökvatap.

En vatnið dugar ekki alltaf eitt og sér. Líkami þinn gæti þurft á steinefnum að halda, líkt og þeim sem eru t.d. í Gatorade og Powerade drykkjum. Þátttakendur og foringjar munu eiga þess kost að fá slíka blöndu í vatnið. Þær eru einfaldlega settar út í vatnsflösku þar sem þær leysast upp og þá hefurðu bragðgóðan drykk með hádegismatnum eða til að drekka reglulega yfir daginn.

Drykkir með koffíni og/eða sykri s.s. gosdrykkir auka þörf okkar fyrir vökva og þá ber að forðast.

Notað er fánakerfi sem varar við hættulega miklum hita:

  • Grænn fáni: Lofthiti 82-85°F eða 27-29°C. Þú þarft að drekka 0,25-0,5 lítra á klukkustund.
  • Gulur fáni: Lofthiti 85-88°F eða 29-31°C. Þú þarft að drekka 0,5-0,75 lítra á klukkustund.
  • Rauður fáni: Lofthiti 88-90°F eða 31-32°C. Þú þarft að drekka 0,75-1,0 lítra á klukkustund.
  • Svartur fáni: Lofthiti hærri en 90°F eða 32°C. Þú þarft að drekka 1,0-1,25 lítra á klukkustund.

Það verður tilkynnt sérstaklega ef gefa þarf út rauða eða svarta viðvörun og hugsanlega þarf að fresta eða fella niður einstaka dagskrárliði.

3.2. Sólbruni

Mótið er á sömu breiddargráðu og suðurhluti Spánar og Ítalíu. Það þýðir að sólin er sterk! Besta leiðin til að eyðileggja góða ferð er að sólbrenna. Það getur gerst á stuttum tíma og án þess að við verðum þess vör.

ALLIR eiga að bera á sig sólarvörn á hverjum morgni. Alvarlegur sólbruni getur valdið miklum veikindum og varanlegum skemmdum á húð sem getur aukið hættu á húðkrabbameini. Mundu að þú verður úti í sterkri sólargeislun a.m.k. 10 tíma á dag, og það er líka UV geislun í skýjuðu veðri. Mælt er með vatnsheldri sólarvörn með sílikongrunni (líkt og þær sem notaðar eru í íþróttum) með styrkleika SPF 30-50. Þú þarft að passa að verja vel öll viðkvæm svæði s.s. nef, varir (varasalvi), andlit, eyru, hnésbætur, handleggi og sérstaklega svæði sem ekki eru hulin með fatnaði.

Hugaðu líka að hópnum þínum og vinum, það er mikilvægt að vera öruggur fyrir sólinni. Derhúfur eða sólhattar er nauðsynlegt að hafa en ekki nægilegt eitt og sér. Einnig getur verið gott að hafa sólgleraugu.

3.3. Persónulegt hreinlæti

Snyrtimennska er annað og meira en bara að huga að útlitinu. Hreinlæti og snyrtimennska geta komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma og er mikilvæg sýkingarvörn.

Orðið skáti þýðir könnuður og það þýðir að þú verður kannski ekki lengi hreinn í náttúrunni. Það telst hins vegar ekki skortur á hreinlæti og hefur ekki áhrif á heilsu þína eða þeirra sem þú umgengst.

3.3.1. Handþvottur

Þvoðu þér oft um hendurnar. Flestir sjúkdómar smitast með því að snerta mat, smásár, augu, nef eða munn með óhreinum höndum. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þú ert að elda eða meðhöndla mat fyrir þig eða aðra.

Það verður ávallt að þvo hendur:

1. Fyrir eldamennsku og máltíðir

2. Eftir salernisferðir

3. Eftir snertingu við veikan einstakling

4. Þegar hendur eru sjáanlega óhreinar

5. Fyrir og eftir að skipt er á umbúðum á þér sjálfum eða öðrum.

Handspritt er ágætis möguleiki til skemmri tíma en kemur ekki í stað vatns og sápu. Hreinar hendur hjálpa til við að halda þér og þeim sem eru í kringum þig heilbrigðum!

3.3.2. Böðun

Farðu oft í sturtu! Farðu í sturtu að minnsta kosti einu sinni á dag og farðu í hrein og þurr föt. Mundu að bómullarflíkur þorna mjög hægt í mjög röku loftslagi eins og er á mótssvæðinu. Betra er að nota flíkur úr öðrum efnum, t.d. úr dry-fit efnum. Sturtuferðir eru einnig tækifæri til að að leita eftir sárum eða útbrotum. Notaðu vel af sápu.

3.3.3. Verndaðu fæturna

Þar sem þátttakendur fara að mestu leyti fótgangandi um svæðið er mikilvægt að þeir hugsi mjög vel um fæturna. Hér eru nokkur ráð til að koma í veg fyrir vandamál:

• Góðir skór eru mjög mikilvægir. Ekki vera í nýjum skóm.

• Ekki vera í of þröngum sokkum og ekki heldur krumpuðum, götóttum eða óhreinum.

• Ef þú finnur fyrir særindum eða sérð merki um blöðrur eða sár þá skaltu strax gera ráðstafanir, búa um, plástra eða fá aðstoð við að það.

• Þvoðu þér um fæturna daglega, þurrkaðu vandlega á milli tánna, klipptu táneglurnar þvert yfir, verndaðu auma staði með plástri og notaðu fótapúður ef þú þjáist af fótraka.

• Alltaf skal vera í skóm, nema inni í tjöldum og í sundi.

3.3.4. Hvíld

Það er mjög mikilvægt að sofa vel til að halda heilsu og vera hress. Að leggja sig seinnipartinn í klukkutíma eða svo getur einnig hjálpað. Það er líka frábært að leggja sig í rútu og flugvél ef maður getur. Vertu allra besta útgáfan af sjálfum þér,- fáðu næga hvíld.

3.3.5. Borðaðu vel og borðaðu öruggan mat

Á mótinu verður boðið upp á gott úrval af hollum mat til að allir séu hraustir og hressir. Haltu snakki, sælgæti og skyndibitum í lágmarki. Borðaðu ferska ávexti og grænmeti á hverjum degi, það er gott fyrir meltinguna. Gættu þess að borða ekki gamlan mat eða mat sem ekki hefur verið í kæli, slíkt getur valdið matareitrun. Ef þú ert í vafa, ekki borða það,- hentu því!

3.4. Læknisþjónusta

Heilsugæslustöð er á hverju tjaldbúðarsvæði þar sem þátttakendur geta leitað til í fylgd sveitarforingja. Þar er einnig hægt að fara í opinn tíma hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Á svæðinu er líka stórt sjúkrahús - staðsett á svæði D1.

3.5. Villt dýr og plöntur

Skátamótið er í raunverulegum óbyggðum. Farðu ekki nálægt og fóðraðu ekki snáka, bjarndýr, þvottabirni eða leðurblökur. Þessi dýr eru ekki gæludýr og geta borið sjúkdóma eða varist áreiti. Að skilja mat eftir utandyra getur dregið dýrin að. Öll dýrabit skal samstundis tilkynna til heilbrigðisstarfsmanns.

Á svæðinu eru líka plöntur sem geta valdið útbrotum. „Poison Ivy, oak og sumac" eru plöntur sem vaxa allsstaðar. „Mountain Laurel" er sérlega hættuleg planta og skyldi ekki snerta neina hluta hennar.

Pöddur! „Svarta ekkjan" (köngulóartegund), brúnar köngulær (brown recluse) og mítlar eru sérlega varasamar tegundir. Hugaðu að því að leita að mítlum á þér a.m.k. daglega og oftar ef þú ert búin/n að vera í háu grasi eða í skóglendi. Ræddu málið við heilbrigðisstarfsmann ef þú hefur áhyggjur af hugsanlegu biti. Býflugur, vespur, geitungar og moskítóflugur eru einnig tegundir sem geta verið til ama. Þú ættir að bera skordýrafælu á bert hörund og vera í síðbuxum og langerma (ef veður leyfir) þegar ferðast er í skógi og á kvöldin.

3.6. Öryggismál

Hér fyrir neðan eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir þig kæri skáti. Vinsamlegast lestu þetta vel þar sem aðstæður í Bandaríkjunum eru öðruvísi en á Íslandi.

3.6.1. Viðbragðsáætlanir ef upp koma alvarleg atvik fyrir allt svæðið

Ef upp koma atvik sem hafa áhrif á allt og alla á svæðinu mun koma tilkynning með leiðbeiningum í gegnum hátalarakerfi (þar sem því er við komið), í gegnum Jamboree appið og í gegnum talstöðvar starfsmanna mótsins. Hafa skal í huga að veðuraðstæður, hitastig og fleira er allt annað en við erum vön á Íslandi. EF þú verður vör/var við eitthvað af eftirtöldu, ekki bíða eftir tilkynningunni. Bregðast við strax!

Slæmt veður, hvassviðri og/eða eldingaviðvörun: Leitið skjóls í varanlegum byggingum, sturtuhúsum eða í stóru hvítu tjöldunum. Ef um mikla rigningu er að ræða forðist skurði eða staði sem geta fyllst af vatni. Verið vakandi fyrir fallandi hlutum og trjágreinum.

Ef viðvörun kemur um fellibyl (hurricane) skal EKKI farið inn í tjöldin heldur í næstu varanlegu byggingu, sturtuhús o.þ.h. Ef þið komist ekki í slíkt skjól skuluð þið leita í lægsta mögulega punkt s.s. skurð og leggjast þar niður.

Hitaviðvaranir: Rauð eða svört hitaviðvörun: Drekkið meira af vatni, fylgið leiðbeiningunum á ,,Water Intake Guide“. Finnið vatn, skugga og hvílist ef þarf. Passið alltaf höfuðið ykkar.

Rýming svæðis: Forðist eða farið af svæðinu eins fljótt og þið getið og stefnið að hátíðarsvæðinu.

Talningar: Ef á þarf að halda að það þurfi að telja alla þátttakendur að þá skulu allir leita til sveitarforingja síns á sínu heimasvæði og/eða láta vita af sér. Jafnframt er mögulegt að leita í aðstöðu fararstjórnar íslenska hópsins við hátíðarsvæðið.

Eldur: Allur eldur á svæðinu er bannaður. Aðeins má nota gaseldavélar í tengslum við eldhúsið. Ef upp kemur eldur á svæðinu: yfirgefið svæðið og hringið í neyðarnúmer mótsins (sjá að ofan). Ef upp kemur eldur á svæðinu munuð þið heyra 3 einnar sekúndu sírenuvæl.

Þegar þið hafið farið eftir opinberum leiðbeiningum mótsins haldið kyrru fyrir þar til ,,All Clear“ skilaboð hafa borist.

3.6.2. Öryggismál einstaklinga

Á Jamboree er mikið lagt upp úr heilsu og velferð þátttakenda. Ef upp koma atvik í tengslum við einstaklinga á mótinu mun íslenska fararstjórnin fara eftir Viðbragðsáætlun æskulýðsvettvangs 2018-2020. Hinsvegar eru á mótinu starfrækt sjúkrahús og sjúkratjöld ásamt fleiru.

Veikindi eða slys: Það eru sjúkrastöðvar á öllum torgum, á völdum staðsetningum og á öllum helstu stöðum á mótssvæðinu. Ef þú verður lasin eða slasast getur þú farið beint á næstu sjúkrastöð eða haft samband við neyðarlínu mótsins (+1 304-465-2900). Í framhaldinu verður haft samband við fararstjórn íslenska hópsins sem mun þá virkja þar til gerða viðbragðsáætlun.

Dapur eða líður illa: Á svæðinu eru starfræktir svokallaðir ,,Hlustunarpóstar“ (e. Listening Ear) þar sem hægt er að fara og tjá sig og fá aðstoð ef eitthvað bjátar á.

Öryggi er á ábyrgð okkar allra: Ef þú sérð eitthvað... segðu eitthvað. Við reynum öll að vera vakandi og hjálpa hvort öðru hvað sem bjátar á. Á svæðinu er öryggisgæsla (sjálfboðaliðar) sem eru meira en tilbúnir til að aðstoða ef á þarf að halda. Þeir munu vakta allt mótssvæðið og eru þarna til að tryggja okkar öryggi. Munið bara að bjóða þeim ,,Góðan daginn“ (og kannski segja þeim hvað það þýðir líka) 😊.

Skjal þetta er útbúið af farastjórn WSJ 2019 með fyrirvara um breytingar og verður uppfært ef þörf krefur.

Credits:

Created with images by FotoEmotions - "hands water fountain" • Jack Sloop - "untitled image" • pixelcreatures - "security protection anti virus"

Report Abuse

If you feel that this video content violates the Adobe Terms of Use, you may report this content by filling out this quick form.

To report a copyright violation, please follow the DMCA section in the Terms of Use.