Loading

Handrit úr safni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hér má fletta nokkrum merkum handritum sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Öll handrit í safni Árnastofnunar hafa svokölluð safnmörk en sum þeirra eru líka kennd við staði eða söfn þar sem þau voru geymd um tíma, til dæmis Möðruvallabók, sem heitir eftir Möðruvöllum í Eyjafirði, eða Konungsbók eddukvæða, sem er svo nefnd af því hún var lengi í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Þess eru einnig dæmi að handrit séu kennd við fyrrum eigendur sína eins og Melsteðs-Edda.

Safnmörkin eru samsett úr einkennisstöfum, númeri og stærðartölu. Einkennisstafirnir vísa til þess hvort handritið kemur úr safni Árna Magnússonar (AM), úr Konungsbókhlöðu (GKS, NKS) eða tilheyrir þeim handritum sem stofnunin hefur eignast síðan hún var sett á fót (SÁM). Stærðartalan gefur vísbendingu um stærð handritsins: folio-handrit (fol.) eru stærst, þá koma quarto-handrit (4to), síðan octavo-handrit (8vo) og loks duodecimo (12mo) sem eru varla nema lófastór. Þegar vísað er til blaðsíðu í handriti er það gert með því að tiltaka númer blaðsins, t.d. 8, og nota svo bókstafina r (fyrir latneska orðið recto) eða v (verso) til þess að gefa til kynna hvort um forsíðu blaðsins (8r) eða baksíðu (8v) er að ræða.

Konungsbók eddukvæða

Konungsbók eddukvæða, GKS 2365 4to, er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur og frægust allra íslenskra bóka. Hún er talin skrifuð um 1270 og er nú 45 blöð. Um uppruna hennar og feril að öðru leyti er ekkert vitað fyrr en Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup letraði á hana einkennisstafi sína og ártalið 1643. Þá voru týnd úr henni 8 blöð eða eitt kver. Niðurlag Sigurdrífumála, sem hafa endað fremst í þessu glataða kveri, er varðveitt í uppskriftum, en annars eru kvæðin sem staðið hafa á þessum blöðum nú hvergi til.

Kvæðin í bókinni skiptast í tvo aðalflokka. Í fyrra hluta bókarinnar eru kvæði um heiðin goð, en í síðara hlutanum kvæði um fornar germanskar hetjur. Fremst er skipað Völuspá, yfirlitskvæði sem birtir í leiftursýnum heimsmynd og heimssögu ásatrúar. Um svipað efni fjalla Vafþrúðnismál og Grímnismál sem koma litlu síðar í handritinu. Milli Völuspár og Vafþrúðnismála eru Hávamál sem lögð eru Óðni í munn, siðakvæði og heilræða. Á eftir Grímnismálum koma önnur goðakvæði sem öll fjalla um einstaka viðburði í lífi goðanna. Flest eða öll þessi goðakvæði munu hafa verið ort í öndverðu á síðustu öldum heiðni, á Íslandi eða öðrum byggðum norrænna manna, en hafa lifað og mótast á vörum fólks eftir kristnitöku.

Hetjukvæðunum má skipta í flokka eftir efni og aðalpersónum. Fyrst er kveðskapur um Helga Hundingsbana og nafna hans Hjörvarðsson, þá um Sigurð Fáfnisbana, síðan koma kvæði um Atla Húnakonung og Gjúkunga, og loks kvæði um Jörmunrek konung Gota. Kvæðin eru misgömul að uppruna og endurspegla ólíkt umhverfi í stíl og efnistökum. Milli goða- og hetjukvæðanna í handritinu standa Völundarkviða og Alvíssmál og fer vel á því þar eð persónur þeirra eru á milli tveggja heima, hvorki goð né menn.

Sum kvæðanna í Konungsbók eru varðveitt í fleiri handritum, en flest eru hvergi til nema þar. Í öðrum yngri handritum eru líka einstöku kvæði sem svipar til kvæðanna í Konungsbók, og er venja að telja þau einnig til eddukvæða. Þar á meðal eru Baldursdraumar, Hyndluljóð, Völuspá hin skamma, Gróttasöngur, Rígsþula og Hlöðskviða.

Brynjólfur biskup sendi bókina Friðriki þriðja Danakonungi, ásamt fleiri merkum skinnbókum, árið 1662. Hún var síðan varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Hún kom aftur heim til Íslands 21. apríl 1971.

Flateyjarbók

Flateyjarbók er stærst allra íslenskra skinnbóka, 202 blöð skrifuð undir lok 14. aldar og 23 blöð sem aukið var í bókina á síðari hluta 15. aldar. Í formála hennar segir að bókina eigi Jón Hákonarson og að hana hafi ritað Jón prestur Þórðarson og Magnús prestur Þórhallsson og að sá síðarnefndi hafi lýst (myndskreytt) hana alla. Jón Hákonarson (f. 1350) var auðugur bóndi og bjó í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu, en fátt er vitað um skrifarana tvo. Á öðrum stað í bókinni segir Magnús Þórhallsson að hún sé rituð 1387, en hann hefur síðan aukið ofurlitlu við hana næstu sjö árin. Á síðara hluta 15. aldar mun bókin hafa verið í eigu Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, sem jók í hana blöðunum 23, en eftir hans dag eignaðist sonarsonur hans, Jón Björnsson í Flatey, handritið. Jón gaf það síðar sonarsyni sínum Jóni Finnssyni, sem einnig bjó í Flatey, og er bókin kennd við heimkynni þeirra feðga.

Meginefni Flateyjarbókar er sögur af Noregskonungum. Þar eru fyrirferðarmestar Ólafs saga Tryggvasonar (d. 1000) – sérstök gerð þeirrar sögu sem er nefnd hin mesta, Ólafs saga helga (d. 1030), Sverris saga (d. 1202) og Hákonar saga gamla (d. 1263). Í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu er saga þessa konungs eftir Snorra Sturluson notuð sem uppistaða, en miklu efni sem eitthvað varðaði ævi konungsins og kristniboð hans ofið inn í. Þar á meðal eru Færeyinga saga, Orkneyinga saga, Fóstbræðra saga og Grænlendinga saga, ein elsta heimild um fund Vínlands sem hvergi er varðveitt annars staðar.

Aftast í Flateyjarbók er annáll sem spannar tímabilið frá því að Júlíus Sesar varð „einvaldshöfðingi yfir öllum heimi“ og fram til ársins 1394, en þá var „hallæri mikið til kostar og skreiðar nær um allt land, vor kalt, grasvöxtur lítill, fellir nokkur“.

Búningur Flateyjarbókar er slíkur, einkum þó lýsingar, að einstakt er þegar um söguhandrit er að ræða sem er fremur ætlað til skemmtunar og fróðleiks en nytsemdar í andlegum eða veraldlegum efnum.

Jón Finnsson í Flatey gaf Brynjólfi Sveinssyni biskupi Flateyjarbók 1647 en biskup sendi hana Friðriki þriðja Danakonungi árið 1656. Fullar þrjár aldir var Flateyjarbók einn helsti kjörgripur Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, en gjafahringnum var lokað síðasta vetrardag 1971, þegar Helge Larsen menntamálaráðherra Dana afhenti hana Gylfa Þ. Gíslasyni menntamálaráðherra með orðunum „Vær så god! Flatøbogen“.

AM 227 fol. – Stjórn

AM 227 fol. er í hópi glæsilegustu handrita í hinu mikla safni Árna Magnússonar og ber íslenskri bókagerð um miðbik 14. aldar fagurt vitni. Í handritinu eru þýðingar á nokkrum bókum Gamla testamentisins með ívafi skýringargreina úr lærdómsritunum Historia scholastica eftir Petrus Comestor og Speculum historiale eftir Vinsentíus frá Beauvais. Þessi ritasamsteypa er kölluð Stjórn og nær það heiti yfir þetta handrit og nokkur önnur sem varðveita sömu rit. Nafnið hefur sennilega ekki fylgt handritunum frá upphafi heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Uppruni og merking nafngiftarinnar er ekki með öllu ljós en nærtækt er að ætla að hún vísi til stjórnar Guðs á sköpunarverkinu.

Handrit þetta var skrifað á Íslandi um miðja 14. öld. Það er tvídálka með stórum spássíum og víða eru stórir, skreyttir og litaðir stafir, dregnir út úr leturfleti. Í handritinu eru núna 128 blöð en nokkur hafa glatast og týnst og er ekki ósennilegt að blöðin hafi upphaflega verið um 150 talsins. Handritið er í bandi frá biskupstíð Þórðar biskups Þorlákssonar (1674–1697); eru það pappaspjöld klædd skinni með meitlaðri skreytingu á kápu og kili með tveimur spennslum.

Stjórn nær yfir eftirtalin rit Biblíunnar: Mósebækurnar fimm, Jósúabók, Dómarabók, Rutarbók, fyrri og síðari Samúelsbók og fyrri og síðari Konungabók. Ljóst er að vegleg umgjörð hæfði handritum sem varðveittu heilaga ritningu og mikilvægan guðfræðilegan lærdóm enda hefur ekkert verið til sparað. Kaflafyrirsagnir eru með fagurrauðu bleki og á flestum síðum skartar textinn rauðum, grænum eða bláum upphafsstöfum með einhvers konar flúri. Helst af öllu gleðja augað stórir sögustafir með myndum af atburðum úr Gamla testamentinu, t.d. má þar sjá Adam og Evu við skilningstré góðs og ills, Abraham með sverð á lofti, reiðubúinn að fórna syni sínum Ísak, múra Jeríkóborgar og fleira. Lýsingarnar eru gerðar af miklu listfengi. Bent hefur verið á skyldleika þeirra við lýsingar í enskum saltarahandritum frá því snemma á 14. öld og kann að vera að listamaðurinn hafi sótt fyrirmyndir sínar þangað.

Tveir skrifarar, augljóslega vanir menn, hafa unnið að ritun bókarinnar. Saman hafa þeir einnig skrifað annað Stjórnarhandrit, AM 229 fol. og einnig er hendur beggja að finna á handriti sem hefur að geyma Klárus sögu og ýmis ævintýri. Annar þeirra hefur skrifað hið þekkta handrit Ormsbók sem geymir meðal annars Snorra-Eddu og málfræðiritgerðirnar fjórar.

Sennilegt er að handritin sem kölluð eru Stjórn hafi verið skrifuð við kirkjulegt menntasetur. AM 227 fol. var í eigu Skálholtsstóls seint á 16. öld og komst þaðan í eigu Árna Magnússonar en um feril þess fram að því er ekkert vitað. Hins vegar er ljóst að nokkur þeirra handrita sem sömu menn skrifuðu tengjast Norðurlandi, meðal annars kirkjum í Húnavatnssýslu. Það gæti verið vísbending um að handritið hafi verið skrifað í benediktínaklaustrinu á Þingeyrum.

Möðruvallabók

AM 132 fol. eða Möðruvallabók er sagnahandrit sem hefur að geyma ellefu Íslendingasögur. Það var skrifað á 14. öld, að öllum líkindum á árunum 1330–1370. Möðruvallabók er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna og í mörgum tilvikum eina miðaldahandritið sem geymir þær heilar. Sögurnar eru í þessari röð: Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Víga-Glúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra saga, Hallfreðar saga vandræðaskálds, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga.

Möðruvallabók er þykk og efnismikil í stóru broti og greinilegt að ekkert hefur verið til sparað við gerð hennar. Hún er núna 200 blöð á bókfelli, bundin inn í tréspjöld. Textaflöturinn er tvídálka og spássíur eru stórar. Eikarspjöldin sem bókin er bundin í eru aðeins of lítil fyrir handritið og talið er líklegt að þau séu yngri en handritið sjálft. Sterkar vísbendingar eru um að kverin í handritinu hafi ekki verið bundin inn í spjöldin fyrr en snemma á 20. öld og að þau hafi legið laus í stafla án spjalda um langa hríð. Af þeim sökum var hætta á að blöð glötuðust og röð kvera ruglaðist. Upphaflega hefur bókin sennilega verið að minnsta kosti 27 kver eða 214 blöð.

Sögurnar eru í landfræðilegri röð, þ.e. fyrsta sagan, Njála gerist einkum á Suðurlandi og síðan berst leikurinn vestur og norður um landið og allt austur á firði en þó á þetta ekki við um fjórar síðustu sögurnar og er því hugsanlegt að niðurröðun sagnanna sé tilviljun. Það er alla vega ljóst að ætlunin var að hafa fleiri sögur í handritinu. Sérstaklega áhugavert er að á spássíu á bl. 61v, þar sem Njáls sögu lýkur, stendur að hér eigi að bæta við Gauks sögu Trandilssonar en sú saga hefur ekki varðveist.

Handritið er að mestu leyti skrifað af einum manni, vönum skrifara, en önnur hönd er á vísum í Egils sögu og enn önnur á fyrirsögnum. Upphafsstafir eru víða skreyttir og í lit og ef til vill með enn annarri hendi. Gera má ráð fyrir að skrifararnir hafi verið samtímamenn og starfað á Norðurlandi. Rithönd aðalskrifarans er að finna á einum sex öðrum handritum og handritabrotum sem fjalla um kristileg efni og eru að öllum líkindum skrifuð á Norðurlandi, helst í Eyjafjarðarsýslu. Svo mikið er víst að þar var Möðruvallabók niðurkomin á 17. öld því að 3. maí 1628 skrifar Magnús Björnsson (1595–1662) nafn sitt á hana „í stóru baðstofunni á Möðruvöllum“ (blað 18v). Er handritið þess vegna kallað Möðruvallabók. Magnús var talinn með auðugustu mönnum landsins. Hann bjó á Munkaþverá í Eyjafirði og varð síðar lögmaður.

Björn sonur Magnúsar tók Möðruvallabók með sér til Kaupmannahafnar árið 1684 og gaf hana Thomasi Bartholin, fornfræðingi konungs og hollvini Árna Magnússonar. Tilgangurinn mun hafa verið sá að liðka fyrir því að Björn fengi aftur sýslumannsembætti sem dæmt hafði verið af honum. Ef það er rétt, bar ferðin tilætlaðan árangur. Bartholin lést árið 1690 og eftir það komst Möðruvallabók í eigu Árna Magnússonar.

Skarðsbók postulasagna

Skarðsbók postulasagna, eða Codex Scardensis eins og hún hefur verið nefnd upp á latínu, er eitt stærsta og glæsilegasta miðaldahandrit íslenskt. Það var skrifað laust eftir miðja 14. öld, að líkindum í klaustrinu á Helgafelli á Snæfellsnesi og að beiðni Orms Snorrasonar höfðingja á Skarði á Skarðsströnd sem gaf handritið kirkjunni á Skarði. Þar var bókin næstu aldir, allt þar til snemma á 19. öld þegar hún var flutt úr landi og komst eftir einhverjum leiðum í hendur bóksala í Lundúnum sem seldi hana árið 1836 enska bókasafnaranum Sir Thomas Phillipps. Handritið var í eigu Phillips og erfingja hans fram á miðja 20. öld. Í nóvember árið 1965 var Skarðsbók boðin upp hjá Sotheby & Co. og bundust þá íslensku bankarnir samtökum um að kaupa hana og færa íslensku þjóðinni að gjöf. Hún kom aftur heim til Íslands í október 1966.

Skarðbók hefur upphaflega verið 95 blöð en eitt blað hefur týnst úr henni. Handritið er veglegt að allri gerð; bókfellið er óvenjulega vandað, textinn er skrifaður í tveimur dálkum með stóru letri og upphafsstafir eru glæsilega skreyttir. Það hefur þó orðið fyrir ýmsu hnjaski á langri ævi. Upprunalegt band bókarinnar hefur einhvern tíma eyðilagst og blöðin losnað sundur. Einnig hefur verið skorið eða klippt af jöðrum margra blaðanna, áreiðanlega vegna þess að þau hafa trosnað.

Á Skarðsbók eru ellefu sögur af postulum Krists sem allar eru þýddar úr latínu: Péturs saga, Páls saga, Andreas saga, Tveggja postula saga Jóns og Jakobs, Tómas saga, Filippus saga, Jakobs saga, Bartholomeus saga, Matthías saga, Tveggja postula saga Símons og Júdas, og Mattheus saga. Þýðingarnar eru misgamlar; þær elstu voru gerðar á 12. öld en hinar yngstu ekki fyrr en um 1300. Handritið er að mestu skrifað af einum skrifara, en önnur hönd tekur við á blaði 82. Þriðji maðurinn hefur svo skrifað rauðar fyrirsagnir og gert hina fögru upphafsstafi. Fyrsta síða handritsins og síðasta blaðið voru upphaflega auð en síðar voru skrifaðir þar tveir máldagar kirkjunnar á Skarði og tíundargerð.

Konungsbók

Snorra-Eddu

Konungsbók Snorra-Eddu, GKS 2367 4to, er íslenskt handrit frá upphafi 14. aldar. Það geymir Eddu Snorra Sturlusonar og er það handrit sem flestar útgáfur Eddu byggjast aðallega á. Edda hefst með formála þar sem greint er frá för Óðins og ása frá Tróju til Norðurlanda þar sem þeir eru teknir í guðatölu. Óðinn sest að í Sigtúnum í Svíþjóð.

Næsti hluti Eddu er Gylfaginning þar sem sagt er frá því að Gylfi konungur í Svíþjóð heimsækir æsi og fær frá þeim goðafræðilegan fróðleik. Þar er sagt frá ásum og vönum, upphafi heimsins og Ragnarökum. Vitnað er í eddukvæði og þá sérstaklega Völuspá.

Skáldskaparmál taka síðan við og þar er markmiðið að kenna skáldum að yrkja með kenningum og heitum sem eiga sér undirstöðu í goðafræði og hetjusögum. Eddu lýkur síðan með Háttatali sem Snorri Sturluson orti um Hákon konung og Skúla jarl. Í Háttatali eru sýndir margvíslegir bragarhættir og stílbrögð.

Konungsbók lýkur ekki með Háttatali heldur taka þar við í lokin tvö kvæði. Fyrst er Jómsvíkingadrápa eftir Bjarna Kolbeinsson, biskup í Orkneyjum. Síðast er Málsháttakvæði þar sem ýmis spakmæli eru fléttuð saman í rímað kvæði. Þar eru til dæmis þessar línur:

Skammæ þykja ófin öll.

Ekki margt er verra en tröll.

Í Málsháttakvæði er nokkuð um orðmyndir sem eru óvenjulegar í íslensku og hafa ýmis rök verið færð að því að kvæðið sé orkneyskt að uppruna eins og það sem á undan fer í handritinu.

Konungsbók er rituð með höndum tveggja skrifara. Annar hefur skrifað mestalla bókina en hinn hefur skrifað kvæðið Haustlöng á blaði 25v. Aðalskrifarinn hefur einnig ritað annað varðveitt handrit – AM 68 fol. en á því er Ólafs saga helga. Hann hefur verið atvinnumaður í greininni og skriftin er vönduð. Konungsbók er þó ekki íburðarmikið handrit, það er óskreytt og með hóflegum spássíum.

Það fyrsta sem vitað er með vissu um ferðir Konungsbókar er að Brynjólfur biskup Sveinsson keypti handritið 31. janúar 1640 af Magnúsi Gunnlaugssyni í Skálholti. Biskupinn sendi síðan Friðriki þriðja Danakonungi handritið að gjöf 1662. Um tíma var handritið talið glatað og þegar Rasmus Rask gaf út Snorra-Eddu í heild í fyrsta sinn 1818 varð hann að styðjast við afrit. Bókin kom svo aftur í leitirnar.

Margrétar saga

​Handritið AM 431 12mo er skinnhandrit, aðeins 119 x 90 mm að stærð. Það geymir Margrétar sögu sem er þýdd saga um píslarvottinn heilaga Margréti. Sagan segir frá hinni ungu og fögru Margréti frá Antíokkíu. Ung að aldri tók hún kristna trú en faðir hennar var heiðinn. Þegar hún er orðin gjafvaxta kemur heiðinn greifi auga á hana og vill eignast hana fyrir konu eða frillu. Margrét hafnar honum og greifinn lætur handtaka hana í reiði sinni. Þrátt fyrir fortölur og píslir vill hún hvorki þýðast greifann né blóta heiðin goð. Þegar Margrét er fangi í myrkvastofu kemur þangað dreki. Hann gleypir hana en vegna heilagleika hennar sleppur hún lifandi og ósködduð úr kviði hans.

Heilög Margrét var verndardýrlingur kvenna í barnsnauð og hefur drekasögnin líklega verið kveikjan að því hlutverki. Þannig áttu börn að komast heilbrigð og lifandi úr móðurkviði eins og Margrét úr kviði drekans. Í sögulok er Margrét líflátin. Skömmu áður fer hún með bæn þar sem meðal annars segir: „Enn bið eg, drottinn, sá er ritar píslarsögu mína eða kaupir þá bók, fylltu þá af helgum anda. Og í því hýsi er bók sú er inni, verði þar eigi fætt dautt barn né lama.”

Í handritinu er einnig að finna bænir og töfraformúlur. Þar er alkunn töfraformúla, SATOR AREPO TENET OPERA ROTAS sem á að lesa þrisvar yfir lendum konunnar og gera þrjú krossmörk í hvert sinn. Þar á eftir fylgir bæn sem kölluð hefur verið „góða bænin” eða bæn heilags Leonardus, en víða var algengt að heita á hann við barnsburð. Á eftir bæninni kemur ný fyrirsögn „Kvenna lausn” en þar eru leiðbeiningar um notkun bókarinnar, óljósar þó. Af þeim má ráða að bókin, eða hluti hennar, hafi verið bundinn við hægra læri konunnar. Fleiri handrit í litlu broti með Margrétar sögu og skyldu efni hafa varðveist og væntanlega verið notuð á sama hátt og AM 431 12mo.

Á öftustu blaðsíðu handritsins stendur:

Lengi hefur þú skrifað þessa sögu, Jón strákur Arason. Ekki má þetta skrif heita, það er mismæli fyrir mig, heldur er þetta krabb og illa krabbað. Biðjið sem áður fyrir Jóni Arasyni, þeir sem söguna lesa. Geymi oss guð öll saman og jungfrú sacnta María mín að ílífu. Amen.

Strákurinn Jón Arason mun ekki vera biskupinn heldur vestfirskur samtíðarmaður hans. Þeir bræður Jón og Tómas Arasynir ásamt Ara Jónssyni föður þeirra voru afkastamiklir skrifarar. Ari lögmaður Jónsson, sonur biskups, er þó talinn hafa skrifað eitt Margrétarsöguhandrit, AM 433 c 12mo.

Handritið var skrifað á Íslandi á fyrri hluta 16. aldar. Árni Magnússon fékk það frá Gísla Jónssyni á Völlum og Stofnun Árna Magnússonar tók við því 24. apríl 1992.

Reykjabók Jónsbókar

AM 345 fol. er handrit á skinni sem hefur að geyma lögbókina Jónsbók og að auki réttarbætur og tímatal. Það mun vera skrifað á Íslandi á síðari hluta 16. aldar. Réttarbæturnar eru frá 13. öld til 16. aldar; af síðustu réttarbótinni má sjá að handritið er skrifað eftir 1549. Það er að mestu leyti með einni hendi en líklega er nokkuð yngri hönd á síðustu 15 blöðunum.

Jónsbók er lögbók sem tók við af Járnsíðu árið 1281 í kjölfar þeirra breytinga sem urðu þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262–1264. Öldum saman var Jónsbók grunnurinn að íslenskum lögum. Þótt Ísland væri hluti af norska ríkinu – og síðar því danska – hafði landið sín eigin lög á íslensku. Líklegt er að Jónsbók hafi þannig átt allmikinn þátt í að varðveita íslenska tungu. Enn eru nokkur ákvæði hennar í gildi og stundum kemur það fyrir að dæmt er eftir þeim.

Jónsbók er varðveitt í fleiri en tvö hundruð handritum. Hún var fyrst prentuð árið 1578 á Hólum en þrátt fyrir það var haldið áfram að skrifa hana upp fram á 17. öld. Margir Íslendingar á fyrri öldum lærðu að lesa af Jónsbókarhandritum enda voru fáar bækur til á jafnmörgum heimilum.

Margar lögbókaruppskriftir eru fallegar og eigulegar bækur með vandaðri skrift og skreyttum upphafsstöfum. AM 345 fol. er gott dæmi um slíkt handrit. Það er prýtt allmörgum myndum, t.d. er pennadregin mynd á blaði 1r af konungunum Sverri, Hákoni, Magnúsi og Eiríki, tveimur og tveimur saman. Einnig er litskreytt mynd á blaði 1v af Ólafi konungi Haraldssyni, sitjandi með öxi og bók. Víða eru myndir á spássíum, einkum neðri spássíum, sumar pennadregnar en aðrar í lit. Sumar tengjast texta handritsins en aðrar sýna ýmis dýr og kynjaskepnur. Upphafsstafir eru í mörgum litum, sumir mikið skreyttir, og oft nær leggur stafanna niður alla síðuna. Ýmsar yngri viðbætur eru á spássíum, t.d. almanaksvísur í rímtalinu á blaði 86v–92r, skrifaðar á 17. öld. Rauðar fyrirsagnir kapítula eru einnig með annarri hendi en meginmál og gæti það verið vísbending um að lýsingarnar í handritinu hafi verið gerðar af öðrum manni en aðalskrifara þess. Handritið var í eigu Einars Ísleifssonar (f. 1675) lögréttumanns á Reykjum í Mosfellssveit áður en það komst í eigu Árna Magnússonar eins og sjá má af seðli fremst í handritinu, svo og af skrá Árna yfir eigin handrit í AM 435 a 4to.

Langa-Edda

AM 738 4to er pappírshandrit frá síðari hluta 17. aldar. Það er óvenjulegt í laginu eða 135 blöð í aflöngu broti, 330 mm x 105 mm, með öðrum orðum langt og mjótt, og því stundum kallað Langa-Edda (Edda oblonga). Það hefur að geyma kafla úr Snorra Eddu og mjög fjölbreyttan kveðskap, bæði fornan, svo sem eddukvæði og dróttkvæðar vísur með skýringum, svo og rúnakvæði og særingaljóð. Í handritinu eru einnig kvæði eftir Hallgrím Pétursson (1614–1674), skýringar Hallgríms við vísur sem varðveittar eru í Ólafs sögu Tryggvasonar í Flateyjarbók og skýringar Björns Jónssonar á Skarðsá við Brynhildarljóð. Þá eru í handritinu ástarvísur með villuletri, gátur og spurningar upp úr Snorra-Eddu.

Það sem handritið er þó einkum þekkt fyrir eru 23 litskreyttar myndir af goðum, gyðjum, jötnum og jötnameyjum úr norrænni goðafræði, t.d. Gunnlöðu, Braga og Loka Laufeyjarsyni. Myndunum fylgja athugasemdir skrifara, t.d. stendur við myndina af Gunnlöðu: „Mjöð gefur Gunnlöð. Óðinn hann kyssti hana og var hjá henni þrjár nætur. Suttungsdóttir. Kysstu mig og skaltu verða skáld. Faðmaðu mig og skaltu kveða vel“. Bragi og Loki Laufeyjarson standa saman á síðu og við hlið þeirra er listi yfir kenningar sem nota má um þá.

Handritið virðist vera skrifað árið 1680 eða um það leyti þar sem ártalið stendur skýrum stöfum á titilsíðu Eddu sem er reyndar inni í miðri bók. Þar segir: „EDDA eður samtök fornra ævintýra og dæmisagna þeirra fyrri Norðmanna sem flýðu hingað í Norðurhálfuna utan úr Asía fyrir kristni. Ásamt nokkur tegund þeirra gamal íslensku eður norsku orða hvað menn halda saman skrifað af Sæmundi hinum fróða og Snorra Sturlusyni íslenskunni til orða fjölda sérdeilis í skáldskaparmálum. Skrifað ad nýju Anno ... 1680“ (bl. 34r). Ekki er vitað hver eða hverjir skrifuðu handritið en á titilsíðu Eddu er að finna upphafsstafina SG. Aftast í handritinu eru upphafsstafirnir GSS.

Árni Magnússon fékk handritið frá Magnúsi Jónssyni frá Leirá eins og fram kemur á seðli sem fylgir handritinu en Magnús fékk það frá Ingibjörgu Jónsdóttur í Bæ í Hrútafirði. Áður hafði það verið í eigu Sigurðar Gíslasonar í Bæ. Magnús Jónsson lést árið 1702 þannig að handritið hefur ekki verið nema rúmlega 20 ára þegar Árni eignaðist það. Handritið var síðan í safni Árna í Kaupmannahöfn allt til ársins 1991 þegar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við því. Árið 1964 var gert við handritið og það bundið inn á Árnastofnun í Kaupmannahöfn.

Melsteðs-Edda

SÁM 66, einnig kallað Melsteðs-Edda, var skrifað af Jakobi Sigurðssyni (um 1727–1779) á árunum 1765 og 1766. Í handritinu eru fjölmörg eddukvæði, t.d. Völuspá og Hávamál; einnig er þar Edda Snorra Sturlusonar sem talið er að hann hafi samið um 1220; svo og kaflar um tímatalsfræði, gang himintungla og reikningslist. Síðast en ekki síst er handritið prýtt litríkum myndum af fornum goðum og hetjum. Jakob Sigurðsson stundaði búskap með konu sinni, Ingveldi Sigurðardóttur, fyrst í Jórvík í Breiðdal en síðar fóru þau milli kota í Vopnafirði uns Jakob lést á Breiðumýri í Selárdal árið 1779, rétt liðlega fimmtugur, faðir að minnsta kosti sjö barna. Jakob var listaskrifari og góður teiknari enda er Melsteðs-Edda fallega skrifuð og uppsett. Þrátt fyrir fátækt og ómegð var Jakob furðu afkastamikill skrifari. Á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eru varðveitt ein fjórtán handrit með hans hendi, hið mesta þeirra upp á 339 blöð með fimmtán riddara-, ævintýra- og fornaldarsögum. Einnig er varðveitt myndskreytt sálmahandrit með hendi hans sem hefur safnmarkið SÁM 3.

Handritið skiptist í sjö misstóra hluta og hefur fjórar efnistengdar titilsíður. Á blöðum 73r–80v eru sextán frásagnarmyndir tengdar efni handritsins. Þar má t.d. sjá geitina Heiðrúnu standa uppi á Valhöll, svo og Óðin, Loka og Hæni að matreiða uxa. Skýringarmyndir og töflur eru í seinni hluta handritsins og tengjast þær umfjöllun um stafróf og rúnir, tímatalsfræði, læknisfræði og reikningslist.

SÁM 66 ber þess merki að hafa gengið manna á milli. Fyrri eigendur hafa skrifað nöfn sín á handritið og þannig má rekja feril þess uns það komst í hendur föður ekkjunnar Elínar Sigríðar sem fór með handritið og börnin sín sex frá Halldórsstöðum í Kinn til Kanada árið 1876. Það er til marks um hlutverk bókarinnar í íslenskri alþýðumenningu á 19. öld að óskólagengin kona með sex börn skuli hafa lagt það á sig að ferðast með handritið á vit nýrra heimkynna í Vesturheimi. Elín Sigríður nam land rétt hjá Gimli. Bæ sinn nefndi hún Melstað og er Melsted ættarnafn afkomenda hennar. Af því dregur handritið nafn sitt og er kallað Melsteðs-Edda. Fjölskylda Arnar Arnar, ræðismanns Íslands í Minnesota í Bandaríkjunum, keypti handritið af Kenneth Melsted og gaf það til Árnastofnunar við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðu 13. febrúar árið 2000. Það hafði þá verið um hríð til rannsóknar á stofnuninni eftir að Haraldur Bessason, prófessor í Winnipeg, hafði haft milligöngu um að koma því til Íslands á 8. áratug 20. aldar. Þá komu þeir Leo og Kenneth Melsted með handritið og fólu stofnuninni það til varðveislu.