Loading

Snjallvagninn skapandi skólastarf

Snjallvagninn

Skólaárin 2016-2019 hefur Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri unnið að því að koma upp tækjasafni til kennslu í upplýsingatækni og forritun með dyggum stuðningi framsýnna fyrirtækja og samtaka. Kennslugagnasafnið hefur hlotið nafnið Snjallvagninn.

Snjallvagninn er þróunarverkefni sem miðar að því að efla kennara í að nýta tækni í skólastarfi. Á Snjallvagninum eru ýmis nýstárleg og spennandi kennslutæki á borð við rótbóta, tæknilegó og þrívíddargleraugu.

Snjalltækjasafn

Hugmyndin er að á Snjallvagninum verði að finna nýjustu kennslugögn í upplýsingatækni og miðlun hverju sinni og að Snjallvagninn sé færanlegur þannig að hægt sé að mæta þörfum nemenda og kennara víðsvegar um land með kynningum og námskeiðum.

Tækni fyrir alla

Lagt er upp með að tækin á Snjallvagninum henti öllum aldurshópum frá leikskóla og upp í framhaldsskóla.

Lögð er áhersla á tæknina sem þverfaglegt kennslutæki þar sem lært er í gegnum leik og lausnaleit.

Markmið

Markmiðið með Snjallvagninum er að kynna töfraheima tækninnar fyrir kennurum og nemendum og auðvelda skólum að innleiða snjalltækni í skólastarf.

Hugmyndafræði

Vinna með upplýsingatækni, snjalltækni og stafræna miðlun ætti að vera eðlilegur hluti af starfi í skólum. Þegar snjalltæki eru notuð á skynsamlegan og ábyrgan hátt geta þessir miðlar styrkt skólastarfið og stuðlað að nýsköpun á áhugaverðan hátt. Lagt er upp með að notkunin sé skapandi, markviss, í samhengi við annað nám, kalli á virkni og hlutdeild, sé félagsleg og krefjist ígrundunar.

Ennfremur er lögð áhersla á að tengja notkun tækninnar við námskránna og daglegt starf í skólunum.

Snjallvagninn á ferð og flugi

Allt frá fyrsta degi hefur Snjallvagninn nýst vel og Miðstöð skólaþróunar tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum tengdum tækni í skólastarfi,

Dæmi um skemmtileg verkefni og uppákomur þar sem Snjallvagninn hefur komið við sögu:

  • Fjölbreytt námskeið fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.
  • Heimsóknir frá grunnskólabörnum.
  • Kynningar og snjallsmiðjur með nemendum og kennurum úti í skólum landsins.
  • Jafningafræðsla í Menntabúðum Eyþings.
  • Kynningar fyrir kennaranema bæði í grunn,- og framhaldsnámi við Háskólann.
  • Þátttaka í verkefnum á borð við Barnamenningarhátíð AkureyrarVísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri og Stelpur og tækni á vegum Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins.
  • Þróunarverkefni sem miða að því að tengja snjalltækni, málrækt og sköpun í leik- og grunnskólum.

Tækjabúnaður

Á Snjallvagninum eru vönduð tæki sem frumkvöðlar í kennslufræðum hafa mælt með, tæki sem hafa reynst vel í kennslu um allan heim. Oft eru þetta dýr tæki og því dýrmætt fyrir skólastjórnendur og kennara að hafa aðgang að Snjallvagninum. Þar er hægt að skoða og prófa fjölbreytt snjalltæki og máta þau við starfið í skólanum áður en þau eru keypt en með því móti nýtast fjármunir skólanna betur.

Hér á eftir má sjá kynningu á þeim tækjum sem Snjallvagninn inniheldur.

OSMO

OSMO er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir Ipad. Það sem gerir OSMO leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, börnin handleika púslukubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar í gegnum teikningar, gera tilraunir og æfa forritun.

OSMO hentar vel frá leikskóla og upp í elstu bekki grunnskólans. Hægt er að búa til verkefni frá grunni t.d. fyrir tungumála- og íslenskukennslu.

Tiggly

Stærðfræði smáforrit fyrir yngstu börnin þar sem notaðir eru áþreifanlegir hlutir með skjánum. Í forritinu er unnið með fínhreyfingar, talningu, talnaskilning, samlagningu og rökhugsun. Myndirnar eru fallegar og henta vel fyrir yngstu börnin.

Smáforritið er frítt en kaupa þarf pakka með aukahlutunum.

Lirfan - Code-a-pillar

Einföld forritun fyrir leikskólabörn. Lirfunni er raðað saman með kubbum sem hver táknar eina skipun, þegar lirfan er tilbúin er smellt á hnapp og þá skríður hún áfram og fylgir þeim skipunum sem hún hefur fengið. Skemmtilegt að nota Lirfuna með einingakubbum og öðrum leikföngum í leikskólanum.

Blue-Bot

Skemmtilegur lítill róbóti sem hentar vel til að kenna börnum í leik- og grunnskólum grunnhugtök forritunar. Hægt er að forrita Bluebot bæði með því að ýta á takka á róbótanum og með spjaldtölvu. Forritunin getur því bæði verið með eða án skjás.

Bjöllurnar eru skemmtilegar fyrir yngstu börnin, þær eru aðlaðandi og eiga vel heima t.d. í leik með kubba. Þær geta ferðast um og því tilvalið að blanda saman sköpun og forritun með því að búa þrautabrautir eða jafnvel heila heima fyrir þær með fjölbreyttum efniviði.

Leikur með Bee-bot og Blue-bot eflir rökhugsun og talnaskilning.

Kubbur - Cubetto

Í gegnum leik með Kubb eða Cubetto er hægt að kenna yngstu börnunum að forrita án þess að nota skjá. Kubb er stjórnað með stjórnborði þar sem börnin raða inn skipunum. Allt námsefnið er mjög í anda Montessori, viður og falleg efni.

Auðvelt er að tengja leik með Kubb við málrækt, stærðfræði og fræðslu um heima og geima.

Dash and Dot

Vélmennin Dash og Dot eru margverðlaunuð snjalltæki sem hægt er að forrita með spjaldtölvum. Dash og Dot geta framkvæmt ýmis verkefni s.s. að fara í gegnum þrautabrautir, sendast með skilaboð eða dansa.

Vélmennin gera forritun með börnum áþreifanlega og athafnamiðaða. Þau koma að góðum notum við að efla gagnrýna hugsun, samvinnu, tjáningu, sköpun og ánægju. Einnig falla þau vel að markmiðum aðalnámskrár og þeirri staðreynd að börn læra best í gegnum leik með áhugaverð viðfangsefni.

Dash og Dot eða Dóra og Doddi eins og þau eru oft kölluð gefa óendanlega möguleikar á skemmtilegum verkefnum þar sem sköpunargleðin fær að njóta sín. Hægt er að nota legókubba með róbótunum en það gefur möguleika á mjög fjölbreyttum útfærslum.

Sphero

Lítill og nettur forritanlegur róbóti með marga möguleika, með Sphero er hægt að búa til spennandi verkefni og þrautabrautir sem efla færni í vísindum og tækni, byggja upp hæfileika eins og sjálfstraust og samskipta- og forystuhæfni.

Það er hægt að nota legókubba til að byggja í kringum vélmennið sem eykur möguleikana á skapandi vinnu mikið. Hægt er að fá hulstur utan um Sphero sem ver hann fyrir óhreinindum og hnjaski og gefur möguleika á að hægt sé að fara með hann út eða jafnvel mála með honum.

Sphero Mini

Sphero Mini er eins og nafnið bendir til minni og ódýrari útgáfa af hinum vinsæla Sphero róbóta. Sphero Mini er forritanlegur, smár og skemmtilega hannaður. Honum má stýra með fjarstýringu eða með því að skrifa forrit á spjaldtölvu.

Ozobot

Ozobot eru litlir róbótar sem hægt er að forrita með spjaldtölvu eða með litakóðum. Litakóðunin er sérstaklega skemmtileg þar sem að Ozobot getur greint línur, liti og kóða bæði á stafrænu yfirborði, svo sem á spjaldtölvu og á pappír. Auðvelt er að læra kóðana og búa til þrautabrautir og völundarhús fyrir róbótann. Ozobot eru fyrirferðarlitlir en bjóða upp á marga áhugaverða og skapandi möguleika.

Ozobot passa vel bæði í leik- og grunnskólum. Þeir eru þróaðir með það í huga að nám eigi að fara fram í gegnum leik og samvinnu.

Lego Wedo

Lego Wedo er svipað og hið klassíska legó sem allir þekkja en með viðbættum forritunarmöguleikum. Nú er hægt að búa til sín eigin vélmenni og forrita þau til að gera alls kyns verkefni og þrautir.

Lego Wedo var hannað til að kveikja forvitni og ýta undir sköpunarkraftinn. Frábært kennslutæki sem hentar vel fyrir yngsta stig og gefur marga möguleika á útfærslum, tengingu við námskrá o.fl.

Lego Mindstorms

Lego Mindstorms er svipað og hið klassíska legó sem allir þekkja en með viðbættum forritunarmöguleikum. Nú er hægt að búa til sín eigin vélmenni og forrita þau til að gera alls kyns verkefni og þrautir.

Leikur og verkefnavinna með Lego Mindstorms gefur þátttakendum innsýn inn í heim tækninnar og eflir færni í stærðfræði, vísindum og verkfræði. Verkefnin ýta undir skapandi hugsun og lausnaleit.

Lego Mindstorms er frábært kennslutæki sem gefur marga möguleika á útfærslum, tengingu við námskrá o.fl.

Bloxels

Bloxels eru litlir kubbar sem hægt er að raða saman til að búa til hreyfimyndir og tölvuleiki. Kubbarnir gefa nemendum tækifæri á að búa til tölvuleiki frá grunni og sinna í því ferli fjölbreyttum hlutverkum listamanns, rithöfundar, hönnuðar og forritara.

Frábær leið til gæða sögur barnanna lífi.

Little Bits

Little bits eru litlir litríkir rafmagnskubbar með mismunandi virkni. Hægt er að festa þá saman og skapa bæði stóra og smáa hluti.

Little Bits eru skemmtilegir til að bæta alls kyns tæknibrellum við sköpunarverk barnanna, t.d. er hægt að nota þá til að búa til hljóð, vind, ljós o.fl.

Frábær leið til að kynnast tækni, sjá hvað er hægt að skapa úr henni og læra um rafmagn.

Micro:bit

Microbit er forritanleg tölva hönnuð af BBC og fjölda samstarfsaðila til að vekja áhuga barna á forritun.

Tölvan er öflug þó lítil sé og með henni er hægt að vinna fjölbreytt verkefni. Forritunarvinnan reynir á rökhugsun, hugmyndauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun.

Haustið 2016 fengu allir nemendur í 6. og 7. bekk afhentar Micro:bit tölvur en verkefnið sem er stærsta einstaka aðgerðin sem ráðist hefur verið í til að efla forritunarkennslu á Íslandi og er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV og Samtaka iðnaðarins.

Samhliða þessu verkefni skapaðist eftirspurn eftir námskeiðum fyrir kennara og höfum við reynt að koma til móts við hana.

Aukinn veruleiki og þrívíddargleraugu

Þrívíddargleraugu gera nemendum kleift að upplifa námið á annan hátt en áður. Segja má að gleraugun geti bætt nýrri vídd við bóknámið. Með því að setja upp þrívíddargleraugu geta nemendur upplifað að vera staddir inni í æðakerfinu, ofan í sjónum eða uppi í geimnum. Það er hægt að skoða sjö undurveraldar, berja augum fjarlæga staði eða horfa í kringum sig í flóttamannabúðum. Upplifunin er óneitanlega önnur þegar maður getur staðið inni í myndinni og horft í kringum sig.

Þrívíddarbækur

Bækur sem gefa möguleika á auknum veruleika er skemmtilegar. Í bókunum eru sérstakar síður með merkjum sem hægt er að skanna og þá lifna síðurnar við í spjaldtölvu eða síma. Það er t.d. hægt að skoða sólkerfið í þrívídd eða sjá risaeðlur spretta fram í fullri stærð.

Virtuali-Tee

Virtuali-Tee er stuttermabolur sem gerir nemendum kleift að skyggnast inn í manneskju og skoða líffæri, vöðva og bein.

Bolurinn er til í ýmsum stærðum og honum fylgir frítt app 😊 Skemmtileg leið til að lífga upp á fræðslu um mannslíkamann.

Takk fyrir okkur!

Miðstöð skólaþróunar hefur gengið vel að fá styrki til tækjakaupa og erum við þakklát þeim fyrirtækjum og samtökum sem hafa gert okkur kleift að standa að þessu verkefni en þau eru Eyþing, KEA, Landsvirkjun, Norðurorka og Síminn. Takk fyrir okkur!

Credits:

@miðstöðskólaþróunar