Loading

Það er skrímsli undir rúminu þínu Og hvað ætlar þú að gera í því?

Af hverju fyrirlestur?

Veturinn sem ég ákvað að fara að starfa sjálfstætt þurfti ég að sjá um að hafa eitthvað að gera alveg sjálfur. Ég bjó mér til og tók að mér verkefni sem ég var alveg viss um að ég gæti ekki gert. Ég hef verið röddin í kallkerfinu á risastórri ráðstefnu, verið veislustjóri sem segir brandara og gerir ýmsar hundakúnstir. Svo ákvað ég líka að búa til fyrirlestur um hluti sem ég vildi óska að einhver hefði sagt mér frá þegar ég var yngri. Fyrirlesturinn sem ég bjó til tengdist Barnamenningarhátíð á Austurlandi sem heitir BRAS. Ég hef haldið fyrirlesturinn fyrir alla grunnskóla á Austurlandi auk skóla á Vestfjörðum og Vesturlandi. Í gegnum árin hef ég haldið fjölda námskeiða fyrir ungt tónlistarfólk og kennt á gítar síðan 1995.

Hluti þátttakenda á Hljómsveitanámskeiði Austurlands ásamt Sölku Sól sem kom sem gestur.
Hver er þessi Jón Hilmar?

Ég er gítarleikari og tónlistarmaður frá Neskaupstað. Eftir að ég áttaði mig á því að ég gæti gert miklu meira en að mæta bara í vinnuna hef ég gert fullt af skemmtilegum hlutum sem ég vissi ekki að ég gæti gert. Við getum nefnilega svo miklu meira en við höldum en til þess verðum að þora og gera hlutina og um það fjallar fyrirlesturinn. Ég bjó til minn eigin sjónvarpsþátt, fór og tók viðtal við uppáhalds gítarleikarana mína, skipulagði tónleika með einum þeirra og reyndi meira að segja að taka viðtal við Ed Sheeran. Ég byrjaði að kenna í gegnum netið árið 2016 og hef einungis kennt á netinu síðan 2018. Ég hef spilað með flestum bestu tónlistarmönnum þjóðarinnar og fór til dæmis í tónleikaferð með Birni Thoroddsen til Kanada. Ég hef verið veislustóri og röddin í kallkerfinu á risastórri norrænni ráðstefnu Síðasta hugmynd sem ég framkvæmdi var að senda út eitt kennslumyndband á dag og taka viðtöl við bestu íslensku gítarleikarana. Þættirnir eru á Youtube og Spotify og heita 2020 Leiðir. Málið er að við erum bara það sem við gerum, ekki það sem við segjum, lærum eða kunnum.

Ekki horfa til baka og hugsa “Ég hefði átt að..”
Það er skrímsli undir rúminu þínu

Fyrirlesturinn er skemmtileg blanda af tónlist og tali þar sem ég fjalla um hræðsluna sem tekur alltaf völdin hjá okkur og hversu slæmt það er að lofa henni að ráða för ef við viljum framkvæma það sem okkur langar til að gera. Hvað gerir þú ef það er skrímsli undir rúminu þínu? Breiðir þú upp fyrir haus og lokar augunum eða safnar þú kjarki til að kíkja?

Það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum. Það er erfitt að gera það sem skiptir máli.Hvort ætlar þú að draga sængina upp fyrir haus eða safna kjarki og kíkja undir rúm?

Ég nota dæmi úr mínu lífi og segi frá því sem ég hef þurft að kljást við sem tónlistarmaður, kennari og einstaklingur og hvernig ég þurfti að læra að trúa ekki endilega því sem væri satt heldur því sem væri hjálplegt. Við trúum nefnilega vitleysunni í hausnum á okkur allt of oft. “Ég er glötuð” “Ég kann ekkert”. Við höldum að þetta sé satt en þetta er ekki mjög hjálplegt. Ég hef gítarana með mér og tengi tónlistina sem ég spila við fyrirlesturinn og segi til dæmis frá því þegar ég ákvað að byrja að syngja sem ég þorði ekki að gera fyrr en ég var 35 ára gamall. Hversu marga langar ekkert meira en að syngja en þora því ekki og láta það stjórna sér? Í lok fyrirlestursins er svo há-leynilegt atriði sem allir hafa gaman af. Þetta er hvetjandi fyrirlestur um hluti sem ég er alltaf að æfa mig í og hluti sem ég hef lært sem hafa haft mikil áhrif á mitt líf. Hluti sem ég er ennþá að æfa mig í að gera og ég vildi óska að ég hefði ekki þurft að læra 35 ára gamall upp á mitt einsdæmi.

Hvetjandi og skemmtilegur fyrirlestur!

Ég hef haldið fyrirlesturinn fyrir krakka í 1-10 bekk auk þess að hafa haldið fyrirlestur á kennarafundum. Efnið sem ég tala um er út frá mér sjálfum og um hluti sem ég er að fást við alla daga sem tónlistarmaður og einstaklingur svo ég aðlaga það að þeim hópi sem ég tala við.

  • Skemmtilegur og hvetjandi fyrirlestur.
  • Hann tekur um 50-60 mínútur í fluttningi.
  • Fyrirlesturinn er hvatning í að þora að takast á við áskorannir og framkvæma þær.
  • Fyrirlesturinn vekur upp spurningar og hugmyndir um hvert við viljum stefna.

Ef þú hefur áhuga að fá mig í heimsókn vertu þá í sambandi við mig. Þú getur hringt eða sent mér email. Kveðja, Jón Hilmar Kárason. S:861-1894

Created By
Jon Karason
Appreciate