Loading

Nýr björgunarbátur í smíðum! Björgunarsveitin Ársæll - við treystum á þig!

Fjáröflun fyrir nýjan hraðbjörgunarbát. Við leitum til þín!

Þegar ljóst var að björgunarbáturinn Þórður S. Kristjánsson þyrfti á endurnýjun að halda fóru meðlimir sjósviðs í að greina þarfir og kröfur sem gerðar eru til björgunartækja á sjó og vötnum í dag. Hópurinn fór í einnig í faglega þarfagreiningu á þjónustu okkar hjá Björgunarsveitinni Ársæll fyrir samfélagið.

Eftir ítarlega þarfagreiningu varð til ákveðin vitneskja um hverskonar bát væru um að ræða og í kjölfarið farið í að óska eftir tilboðum. Fengin voru tilboð hjá 16 bátasmiðjum, hérlendis og erlendis. Þegar tilboðin fóru að renna í hús, var orðið ljóst, það sem félagar hópsins höfðu gert sér í hugarlund á fyrstu stigum greiningar að um umtalsverða fjárfestingu væri um að ræða og að við hjá Björgunarsveit Ársæl þurfum að treysta á velvilja fyrirtækja og einstaklinga.

Heildarupphæðin er kr. 50 milljónir og þar af búnaður um 18 milljónir.

Ákveðið var að leggja ekki árar í bát heldur horfa fram á veginn og semja við innlenda bátasmiðju sem jafnframt mun þjónusta bátinn eftir ítarlega og faglega skoðun tilboða. Tilboð Rafnars var á pari við erlendar bátasmiðjur þegar allir þættir tilboðs voru bornir saman.

Stuðningur ykkar gerir okkur kleift að takast á við flóknar björgunaðgerðir á sjó og vera til taks á nóttu sem degi. Hjálpaðu okkur að vera til staðar fyrir samfélagið. Vertu styrktaraðili Björgunarsveitar Ársæls.

Tvær grunnspurningar voru hafðar til hliðsjónar og enn fleiri undirspurningar við þarfagreiningu sjósviðs.

Hvernig hafa þarfir sjóbjörgunarsveitar Ársæls breyst síðustu ár?

Hvað er það sem samfélagið þarfnast frá Björgunarsveit Ársæls í sjó og við vötn?

Gerður var skýr greinarmunur á því hvernig bát menn vildu og hvernig bát þyrfti til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem Ársæll innir af hendi, bæði á sjó og við vötn á suðvesturhorni landsins. Kröfur nútímans hafa breytt „sviðsmyndinni“ talsvert og ýmsar tækninýjungar hafa litið dagsins ljós. Auðvelt er að segja að samfélagið sé bæði orðið hraðara og mikil fjölgun er á umferð sjófarenda. Þetta skýrir að hluta til að það þarf að vera vel útbúinn hraðbjörgunarbátur.

Undirspurningar sem einnig þurfti að fá svör við, og sjósvið kafaði vel ofan í eru:

Hvar eru útköllin?

Hvers eðlis eru útköllin?

Hverjir eru það sem eru að óska eftir aðstoð?

Til að geta greint þessa þætti var farið öflugan gagnagrunn okkar – D4H þar sem öll útköll, öll verkefni og allar æfingar eru skráðar. Hvers eðlis er verkefnið, hvað tók það langan tíma, hverjir tóku þátt, hvaða tæki eru notuð o.s.frv. undanfarin 15 ár eða svo. Ásamt tæknilegum forsendum voru þáverandi, núverandi og tilvonandi þarfir skoðaðar vandlega með áðurnefndum gögnum.

Helstu framtíðar verkefnin eftir greiningu gagna eru:

Leit og björgun með strandlengju á suðvesturhorni
Leit og björgun á sjó nálægt landi og í fjörðum
Sækja veika einstaklinga um borð í báta og skip
Viðbragð við flugslysum við Reykjavíkurflugvöll
Draga vélavana báta að landi
Flytja lensidælur um borð í báta og skip
Aðstoða SHS við slökkvistarf á sjó
Aðstoða fiskibáta
Aðstoða skemmtibáta
Aðstoða ferðaþjónustubáta og skip
Aðstoða skemmtiferðaskip

Það er ljóst að mjög fjölbreytt verkefni eru framundan og hefur Björgunarsveitin Ársæll það að markmiði sínu að innan sveitarinnar sé vel þjálfað björgunarsveitarfólk ávallt til taks. Til að tryggja að svo sé er öflugt fræðslustarf innan sveitarinnar. Einnig er viðhald tækja og búnaðar í hæstu gæðum. Þjálfun, viðhald búnaðar og fræðslustarf er nánast alla daga vikunnar, hvort sem þá er á láði eða legi.

Allir félagar sveitarinnar þurfa að starfa sem nýliðar í um 18 mánaða skeið áður en þeir eru teknir inn sem fullgildir félagar. Það tryggir fagmennsku sveitarinnar og að félagar eru sem best þjálfaðir til að sinna sínum störfum.

Undanfarin 15 ár u.þ.b. samkvæmt gagnagrunni D4H - Ársæll, voru um 200 útköll á F1 forgangi. Þar hefur sjósvið staðið í ströngu, við leit og/eða björgum. Í þessum tölum eru ekki þær aðstoðarbeiðnir sem flokkast undir F2 - F3 (minni forgangur)

Heimild: Gagnagrunnur - D4H Ársæll

Kröfur sem björgunartækið þarf að standast!

 • Að komast hratt á staðinn
 • Að auðvelt sé að manna bátinn [ekki sé krafist vélavarðar]
 • Að báturinn sé öruggur og sjálfréttandi við veltu
 • Að báturinn sé með húsi til að hlúa að sjúklingum
 • Að báturinn sé útbúinn nýjustu tækni í leitarbúnaði
 • Að færanleg slökkvi- og lensidæla sé um borð sem auðvelt er að flytja um borð í báta og skip
 • Að báturinn sé útbúinn dráttarbúnaði
 • Að báturinn geti borið minnst 15 manns ásamt áhöfn

Útkallssvæðið er stórt; nær allt frá Akranesi að Suðurnesjum. Því er Björgunarsveitin Ársæll mikilvægur hlekkur í sjóbjörgunarstörfum fyrir landsmenn. Sjósvið Björgunarsveitarinnar Ársæls er einnig mikilvægt stoð fyrir alþjóðaflugvöllinn í Reykjanesbæ og við Reykjavíkurflugvöll.

Grófar staðsetningar á útköllum Heimild: Gagnagrunnur - D4H Ársæll

Leiftur 1100 hraðbjörgunarbátur

Leiftur 1100 frá bátasmiðjunni Rafnar í Kópavogi varð fyrir valinu en nokkrar breytingar eru gerðar til að auka hagkvæmni í rekstri og virkni.

Allur búnaður sem hraðbjörgunarbáturinn þarf að hafa er einnig settur í bátinn af bátasmiðjunni.

Þann 8. apríl 2020 var undirritaður samningur við bátasmiðjuna Rafnar í Kópavogi um nýsmíði á nýjum, öflugum hraðbjörgunarbát fyrir Björgunarsveitina Ársæl. Báturinn tekur við af eldri bát – Þórði S. Kristjánssyni.

Nýi báturinn - sem ekki hefur hlotið nafn enn þá, mun verða kynntur við hátíðlega athöfn þann 16. október 2020 - á ráðstefnunni Björgun 2020 í Hörpu.

Ertu með hugmynd að nafni á nýja bátinn? Vertu í sambandi við okkur og ræðum málin.

Einn af helstu kostum þess að ganga til samninga við Rafnar og velja Leiftur 1100 er að báturinn er smíðaður hér á landi og er líka þjónustaður hérlendis.

Mikil og góð reynsla er af Leiftri 1100 hjá Landhelgisgæslunni, og tveim björgunarsveitum hérlendis. – Hjálpasveit Skáta í Kópavogi og Geisla á Fáskrúðsfirði.

Þessi nýsmíði er þó heldur frábrugðnari fyrirrennurum sínum. Til að mynda: - stærra hús og öflugri tæki.

Til gamans má geta að samhliða þessari nýsmíði hér heima, þá er verið að smíða 20 samskonar báta fyrir Grísku landhelgisgæsluna.

Við viljum bjóða þér smá innsýn starfið okkar, okkur finnst það í lagi að segja frá tveimur "útköllum". Við birtum annars vegar hluta úr opinberri skýrslu frá Rannsóknanefnd sjóslysa um annað slysið, og hinsvegar birtum hluta úr þakkarbréfi frá lögreglunni á öðru atviki. Við tókum út persónugreinanlegar upplýsingar en látum, með þeirra leyfi nöfn björgunarmanna fylgja.

Þann 10. ágúst 2012 var skúta á siglingu frá Reykjavíkurhöfn inn til Skerjafjarðar. Veður var gott SSA 10 - 15 m/sek. Skömmu eftir að vent var á sundinu á milli Kerlingaskers og Kepps lagðist báturinn, þrátt fyrir að búið væri að rifa seglin verulega, svo mastur fór í sjóinn. Formaður sem komst uppá síðuna sá að neðri hluti kjalar var horfinn og efri hluti hans verulega sprunginn og "jagaðist hann til". Brotnaði hann af skömmu síðar. Hvolfdi þá bátnum endanlega og komst formaðurinn upp á borninn.

Eftir að hafa hafst þar við í um þrjár klukkustundir sást til skipbrotsmannsins frá skemmtiferðaskipi sem tilkynnti hafnsögumönnum atvikið. Bátsverjar björgunarbátsins Þórðar S. Kristjánssonar sem voru við æfingar á svæðinu heyrðu talstöðvarsamskiptin og brugðust þeir strax við. Komu þeir að skipbrotsmanninum norður af Akurey og var honum bjargað af botni bátsins sem var dreginn á hvolfi til Reykjavíkur. Heimild: rannsóknarnefnd sjóslysa skýrsla 2012 nr. 090/12 xxx, skúta

Úr þakkarbréfi frá lögreglunni

"Mig langar að koma á framfæri þökkum og klappi fyrir snör og góð viðbrögð ykkar manna...

... Í kvöld þann 23.01 [ónefnt ár], vorum við send að grjótgarði Sæbrautar við Snorrabraut því þar hafði að kona horft á eftir manni sem féll þar í sjóinn. Við vorum rétt komnir á kantinn og komnir með augastað á manninum þar sem hann svamlaði 40 - 50 metra frá landi. Að kom bátur frá ykkur að kanna hvað var í gangi, forvitnin og þjónustulundin spiluðu þarna gott hlutverk, en þrír lögreglubílar með blá ljós voru á kantinum og lýstu öll ljós á haf út. Á svipstundu voru þeir Kristinn Guðbrandsson, Haraldur Eyvinds og Ólafur Geir Sigurjónsson búnir að koma auga á manninn sem vart hélst á floti lengur sökum kulda og veðurs. Snör viðbrögð þeirra náðu manninum um borð. Við hittum svo á þá alla í höfninni og tókum við manninum sem var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Mig langar fyrir hönd vaktarinnar að færa þökk til þessara þriggja, og koma því á framfæri til Ársæls hvað þeir voru réttir menn á réttum stað.."

Það eru tvö einkennandi atriði við þessi tvö útköll: Annars vegar að í báðum þessum aðgerðum var um lífbjörg að ræða og hins vegar að þessi atvik koma á meðan meðlimir sjósviðs Björgunarsveitarinnar Ársæls eru við æfingar úti á sjó.

Við megum öll vera stolt af okkar fólki!

Við leitum til þín!

Þú getur styrk okkur á ýmsan hátt. Þeir aðilar sem styrkja kaup á búnaði fá nafn sitt á sérstakan viðurkenningarskjöld.

Dæmi um viðurkenningarskjöld sem mun vera í bát og bækistöð fyrir styrktaraðla
Allir styrktaraðilar fá boð um að koma og skoða bátinn við hátíðlega athöfn í Reykjavíkurhöfn þann 16.október 2020
Mercury utanborðsmótorar og stýrisbúnaður frá Seastar
 • 2 x Mercury SeaPro AMS 300hp V8 - utanborðsmótorar
 • Mótorar eru sérstaklega hannaðir fyrir notkun undir miklu álagi
 • Stýristjakkar og stýrisdælur eru frá Seastar

Þú getur styrk kaup á mótor

Verð á einum utanborðsmótor er kr. 3.250.000.-

Áhafnastólar með dempun
 • 4 stk dempandi stólar fyrir alla áhafnameðlimi af Shockwave S3A gerð.
 • Stólarnir minnka líkur á meiðslum vegna högga umtalsvert.
 • 4 punkta öryggisbelti og armhvílur fyrir áhafnameðlimi.
 • Hægt er að leggja niður setu þannig að hægt sé að standa upp við sætið.

Þú getur styrk kaup á stólum

Verð á einum stól er kr. 1.000.000.-

Hitamyndavél
 • Sambyggð hita og low light myndavél af gerðinni FLIR M364C.
 • Auðveldar leit í myrkri og slæmu skyggni

Þú getur styrkt kaup á hitamyndavél

Verð á hitamyndavél er kr. 3.000.000.-

Raymarine siglingatæki
 • Siglingartækjapakki frá Raymarine.
 • 2x12” & 1x16” Raymarine Axiom siglingartæki.
 • Raymarine quantum 2 radar.
 • Raymarine sjálstýring.
 • Raymarine 3D botnskanni

Þú getur styrkt kaup á siglingatækjum

Verð á siglingatækjum er kr. 2.500.000.-

Fjarskiptatæki
 • Öll fjarskipta tæki um borð í bátnum, bæði VHF og Tetra
 • 2x Raymarine Sailor 6215 VHF talstöðvar.
 • Motorola MTM5400 Tetra stöð

Þú getur styrkt kaup á fjarskiptatækjum

Verð á fjarskiptatækjum er kr. 400.000.-

UltraVision ljósabúnaður
 • Ljósabúnaður frá UltraVision. Bæði vinnuljós og framvísandi kastarar.
 • 2x Ultra Vision Nitro 180 maxx kastarar.
 • 4x Ultra Vision Enforcer kastarar.
 • 6x Ultra Vision Invader vinnuljós
 • Ultra Vision Nitro 105 LED bar

Þú getur styrkt kaup á ljósabúnaði

Verð á ljósabúnaði er kr. 500.000.-

Dose 360° toppleitarljós
 • Hægt að snúa í 360°.
 • Öll stýring innan úr húsi.

Þú getur styrkt kaup á toppleitarljósi

Verð á 360° toppleitarljósi er kr. 1.000.000.-

SEA Horse SAR Gore-Tex
 • 4 x SEA Horse SAR Gore-Tex þurrgalli

Þú getur styrkt kaup á þurrgalla

Verð á þurrgalla er kr. 250.000.-

Gecko hjálmar
 • 4 x Gecko hjálmar
 • P.A.S. 028:2002 Maritime Safety Helmet
 • Stillanlegir loftpúðar

Þú getur styrkt kaup á hjálmum

Verð á hjálmi kr. 50.000.-

SeaSafe Pro-Zip öryggisvesti
 • 170N sem blásast sjálfkrafa út í vatni eða sjó.

Þú getur styrkt kaup á vesti

Verð á vesti kr. 30.000.-

Fourht Element Neopren hanskar
 • 4x 5mm Fourth Element Neopren hanskar
 • Thermoflex í gripi

Þú getur styrkt kaup á neopren hönskum

Verð á neopren hönskum er kr. 7.000.-

Þinn styrkur í þessu verkefni verður að okkar styrk! Því með öflugum björgunarbúnaði erum við mun betur í stakk búin að veita samborgurum okkar aðstoð á hættustund.

Við viljum þakka þér fyrir allan þann stuðning sem þú hefur veitt Björgunarsveit Ársæls áður og við erum fullviss um að þú tekur þátt í þessu verkefni með okkur!

Allar nánari upplýsingar eru hægt að fá hjá stjórn Björgunarsveitarinnar Ársæls í gegnum netfangið: stjorn@bjorgunarsveit.is eða hjá verkefnastjóra fjáröflunar fjaroflun@bjorgunarsveit.is

VIÐ TREYSTUM Á ÞIG!

Credits:

Fjáröflun hraðbát Björgunarsveitar Ársæls