Afmælisrit FNS náms- og starfsráðgjöf í 35 ár - 2016

Ávarp formanns

Ingibjörg Kristinsdóttir formaður FNS

Árið 2016 markar ákveðin tímamót í sögu náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Þrjátíu og fimm ár eru liðin frá stofnun Félags náms- og starfsráðgjafa, tuttugu og fimm ár eru liðin frá stofnun námsbrautar í náms- og starfsráðgjöf og tíu ár eru síðan dagur náms- og starfsráðgjafar var stofnaður. Það er því tilefni til að óska okkur til hamingju með afmælið, stíga upp í tímavélina, líta til baka, staldra við í núinu og horfa til framtíðar.

Á stofnfundi Félags náms- og starfsráðgjafa árið 1981 voru 7 félagsmenn, fljótlega voru þeir orðnir 19 en í dag erum við rúmlega 300. Það er ótrúlegt að sjá hversu öflugt starf hefur verið unnið, það sést vel þegar litið er í fundargerðir, tímarit, afmælisrit og fleira sem hefur verið gefið út í tímanna rás. Sautján mismunandi stjórnir hafa leitt félagið og hefur hver og ein þeirra sína sögu að segja, allar hafa unnið að einhverjum sér málefnum eða jafnvel baráttumálum.

Það sem er efst á baugi árið 2016 er tvennt; kjaramál og stefnumótun. Þetta eru málefni sem hafa verið í umræðunni og verða vonandi áfram. Félagsmenn fengu fyrir stuttu senda könnun þar sem þeir geta tekið afstöðu til valkosta varðandi myndum stéttarfélags fyrir náms- og starfsráðgjafa. Þessi könnun er afrakstur nokkurra ára vinnu. Í gegnum tíðina hefur jafnan verið rætt um hvort FNS eigi frekar að vera fagfélag eða stéttarfélag. Áhugavert verður að sjá niðurstöður könnunarinnar og hver framtíð okkar verður.

Hvað varðar stefnumótunina þá skipaði Mennta- og menningarmálaráðuneytið starfshóp í maí 2014, um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf. Í starfshópnum sátu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Félags náms- og starfsráðgjafa. Formaður starfshópsins var Guðrún Birna Kjartansdóttir og var verkefnið unnið í samstarfi við Capacent. Hlutverk starfshópsins var að gera tillögur að framtíðarsýn, stefnu og aðgerðum fyrir náms- og starfsráðgjöf í samstarfi við hagsmunaaðila. Stuðst var við vinnu og greiningar sem unnar höfðu verið fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið síðustu ár og við vinnu sérfræðinga í náms- og starfsráðgjöf í Evrópu, European Lifelong Guidance Policy Network (elgpn.eu) sem Ísland tók virkan þátt í.

Grunni að stefnu var skilað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vorið 2015 en því miður hefur ekki verið unnið markvisst með stefnuna eftir að skýrslunni var skilað. Mismunandi hagsmunaaðilar hafa óskað eftir fundi með mennta- og menningarmálaráðherra um hvernig nýta eigi þá vinnu og niðurstöður sem koma fram í skýrslunni en ekki hefur verið boðið til fundar. Á aðalfundi í apríl 2016 gerði Félag náms- og starfsráðgjafa alvarlegar athugasemdir við að vinna við stefnumótun í faginu hafi legið niðri of lengi, samþykkt var ályktun sem send var á ráðuneytin sem tóku þátt í verkefninu en ekki hefur borist svar við henni. Á degi náms- og starfsráðgjafar birti stjórn FNS grein í fjölmiðlum þar sem óskað var eftir frekara samtali við yfirvöld menntamála á þeim góða grunni stefnumótunar sem þegar hefur verið lagður.

Við teljum tímabært að taka forystuna um málið. Þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð munum við á ný óska eftir fundi með yfirvöldum um hvernig nýta eigi þá vinnu og niðurstöður sem koma fram í grunni að stefnu í náms- og starfsráðgjöf.

Með þessum orðum vil ég óska félaginu velfarnaðar í framtíðinni og vona að hvort sem FNS verður áfram fagfélag eða breytist í stéttarfélag að það verði áfram sameiningartákn fyrir náms- og starfsráðgjafa, láti áfram gott af sér leiða og verði sýnilegt og áhrifaríkt afl innan mennta og atvinnumála.

Ingibjörg Kristinsdóttir, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa

Stjórn FNS 2016-2017. Frá vinstri: Margrét Björk Arnardóttir, Helga Tryggvadóttir, Ingibjörg Kristinsdóttir, Unnur Símonardóttir, Soffía Valdimarsdóttir og Þuríður Ósk Sigurjónsdóttir. Á myndina vantar Kristínu Birnu Jónasdóttir.

Rætur menntunarinnar eru beiskar en ávextir hennar sætir

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2012

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2012 bar yfirskriftina „Stöndum þétt saman sem stétt“. Ingrid Kuhlman frá Þekkingarmiðlun leiddi daginn sem var haldinn í þjóðfundastíl. Umræðuefnið var stefnumótun og framtíðarsýn náms- og starfsráðgjafa.

Eftirfarandi þrjár spurningar voru lagðar fyrir fundinn: Hverjir eru styrkleikar okkar sem stéttar? Hverjir eru veikleikar okkar sem stéttar? Hvaða tækifæri liggja fyrir okkur? Að síðustu var farið í að finna út hvaða þrjú atriði dagsins skiptu mestu máli fyrir stéttina.

Helstu niðurstöður hópavinnunar voru að félagsmenn vildu að stofnað yrði eitt stéttarfélag þar sem hægt yrði að tryggja launakjör og réttindi félagsmanna, efla stéttarvitund, fagvitund og skerpa á lögverndun. Eins var sýnileiki stéttarinnar félagsmönnum ofarlega í huga og umræða um hvaða leiðir væri hægt að fara til þess. Einnig var kallað eftir heildrænni stefnu í náms- og starfsráðgjöf.

Það má með sanni segja að þau málefni sem efst voru á baugi árið 2012 séu enn í fullu gildi árið 2016.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í vinnunni sem náms- og starfsráðgjafi?

Einfalt - náms- og starfsfræðsla!

Það sem mér þykir skemmtilegast er að mæta ráðþega á þeim stað sem hann er staddur. Beita virkri hlustun og nýta mér þá viðtalstækni sem mér hefur verið kennd. Með öðrum orðum finnst mér skemmtilegast þegar gott ráðgjafarsamband hefur myndast, aðstoða ráðþegann við að setja sér markmið og hvetja hann og styðja til þess að ná þeim.

Hlusta á fólk.

Að taka á móti nýjum ráðþega, hlusta á það sem hann / hún hefur fram að færa og að koma til móts við viðkomandi í leit að starfi eða námi.

Aðstoða ungt fólk í leit að námi og starfi hér á landi og annar staðar, Hvaða möguleikar nemendur hafa í dag varðandi styrki til að komast erlendis í starf, þjálfun eða nám.

Mér finnst skemmtilegast að vinna með unga fólkinu í atvinnuleit, hlusta á þeirra sögur og styðja það í að ná sínum markmiðum.

Fyrirbyggjandi: samræður um lífið og námið og framtíðina. Ræða við ungt fólk um styrkleika þeirra og hvernig þau geta nýtt þá í að byggja aðra þætti í lífinu.

Að aðstoða fólk sem á erfitt og koma þeim í hendur sérfræðinga.

Hitta grunnskólanemendur og aðstoða þá við að ná fram eða vinna með það besta í þeirra fari.

Fjölbreytt verkefni sem snúa að ráðgjöf og fræðslu til nemenda, kennara og foreldra.

Skemmtilegast í vinnunni er að finna að maður geri gagn! Að aðstoða fólk við að finna starf (eða nám) við hæfi og komast á betri stað í lífinu er góð tilfinning.

Mikil fagleg vinna með ólíku fólki við fjölbreyttar aðstæður og samvinna við aðrar stofnanir.

Vera til taks fyrir ungt fólk.

Ræða um starfsval, námsval og mögulegan starfsvettvang nemenda.

Guð það er svo margt skemmtilegt við vinnuna mína sem náms- og starfsráðgjafi, erfitt að velja eitthvað eitt sem er skemmtilegast.

Að leggja á mig spennandi rannsóknarvinnu til að komast að einhverju um nám og störf sem einstaklingur hefur áhuga á og sjá að nýja vitneskjan opnar fyrir þeim nýjar dyr!!

Norrænt samstarf

Árið 1997 gerðist FNS fullgildur aðili að NFSY. NFSY stendur fyrir Nordiska förbundet för studie- och yrkesvägledning og eiga félög náms- og starfsráðgjafa á öllum Norðurlöndum fulltrúa í félaginu. Fulltrúar félaganna mynda stjórn sem hittist tvisvar á ári. Megin markmið NFSY er að styrkja og standa vörð um náms- og starfsráðgjöf á Norðurlöndunum, að koma á tengslum og samstarfi fagfélaga í náms- og starfsráðgjöf og að koma fram fyrir hönd Norðurlandanna í alþjóðlegu samhengi innan IAEVG.

Íslendingar tóku við stjórnartaumum NFSY árið 1999 en þá gerðist Guðrún Stefánsdóttir formaður samtakanna. Með henni í stjórn voru Anna Kristín Halldórsdóttir, Anna Sigurðardóttir og Marín B. Jónasdóttir. FNS fór með formennsku samtakanna til ársins 2002.

Meðal mála sem voru lögð fram í stjórnartíð FNS voru gerð heimasíðu norrænu samtakanna, að skoða námslegan bakgrunn náms- og starfsráðgjafa í samtökunum auk þess sem ákveðið var að fundir og fyrirlestrar á ráðstefnum samtakanna færu fram á ensku þar sem ekki þótti takast nægilega vel til að þeir færu fram á norðurlandamáli.

Vorið 2017 er aftur komið að því að FNS taki við stjórnartaumum í NFSY af Finnum. Margrét Björk Arnardóttir hefur setið sem fulltrúi FNS í samtökunum frá 2015.

Námsráðgjafinn

Árið 1987, í formannstíð Guðríðar Sigurðardóttur, var gefið út fyrsta tölublaðið af Námsráðgjafanum. Blaðið kom út í einhver skipti og var sent til þeirra námsráðgjafa sem skráðir voru í Félag íslenskra námsráðgjafa.

Hvað er það besta við starf náms- og starfsráðgjafa?

Fjölbreytt viðfangsefni, mannleg samskipti og stöðug þróun.

Hvað starfið er margþætt og gefandi.

Það hversu fjölbreytt starfið getur verið. Starfið mitt gefur mér tækifæri til að vera til staðar fyrir ráðþega í bæði náms- og starfsvali. Þar sem enginn er eins og viðfangsefnin ólík, þarf ólíka nálgun sem er bæði krefjandi og skemmtilegt.

Gaman að getað orðið að liði í því að einstaklingar nái árangri.

Mest gefandi við starfið eru mannlegu samskiptin við ólíka einstaklinga.

Það besta við starf náms- og starfsráðgjafa er að sjá árangur af starfinu og ef ég næ að snerta við fólki.

Frábært að hitta fullorðið fólk á ýmsum stöðum á lífsgöngunni og eiga samtal um stefnur og leiðir.

Þakklátt og gefandi starf….ég hef verið glöð með þetta starfsval frá fyrsta degi.

Að verða að liði.

Það besta við starf náms- og starfsráðgjafa er hve fjölbreytt starfið er og að hægt sé að nýta menntunina í mörgum störfum í atvinnulífinu og í skólakerfinu.

Að snerta við fólki.

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2013

Dagskráin var glæsileg að vanda en áhersla þetta árið var á verk-, iðn- og listgreinar og bar dagurinn yfirskriftina "Að efla hug og hönd". Fyrri hluta dagsins var varið í ávörp og kynningar sem samræmdust áherslum dagsins en eftir hádegi fóru félagsmenn í vinnusmiðjur í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Þar fengu þátttakendur að reyna fyrir sér í ýmsum greinum svo sem háriðn, rafiðn, málmiðn og hönnun.

Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson ávarpar gesti

Hópavinna

Frumkvöðlahugsun

Á fundi árið 1988 flutti Davíð Óskarsson (lést 2015) merkilegt erindi sem fjallaði um að nauðsynlegt væri fyrir náms- og starfsráðgjafa að hafa stefnu og fræðikenningar að baki sér. Hann kynnti stefnu Parssons og Hollands. Þetta hefur verið nokkur frumkvöðlahugsun þar sem námsbrautin fór mun síðar af stað.

Kynningarefni FNS

Árið 2015-2016 lét FNS gera nokkur myndbönd sem fjalla um náms- og starfsráðgjöf. Hér segja Sindri og Níels frá sinni upplifun.

Lögverndun á starfsheiti náms- og starfsráðgjafa 2009

Einum stærsta áfanga í sögu náms- og starfsráðgjafar hér á landi var náð árið 2009 með tilkomu laga um lögverndun á starfsheiti náms- og starfsráðgjafa. Lögverndunin mun efla enn frekar gæði og metnað í störfum náms- og starfsráðgjafa.

Náms- og starfsráðgjöf 10 ára

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, 20. október 2000

FNS breytingar

Stofnfundur Félags íslenskra námsráðgjafa var haldinn 16. desember 1981. Var þá 19 aðilum boðið að taka þátt í félaginu. Árið 1996 var nafninu breytt í Félag náms- og starfsráðgjafa. Á 35 ára afmæli félagsins 2016 eru félagsmenn 303.

Blaðagreinar í gegnum árin

Úr fundargerð 1988

Rætt um að helstu verkefni námsráðgjafa væru: hópakynningar, einstaklingsviðtöl, útgáfustarfsemi, námskeiðahald og námstækni/vinnubrögð.

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2014

Árið 2014 var Dagur náms – og starfsráðgjafar haldinn hátíðlegur að Hofi á Akureyri. Vegna mikillar eftirspurnar náms- og starfsráðgjafa af landsbyggðinni um viðburð utan höfuðborgarsvæðisins var ákveðið að halda daginn norðan heiða. Dagurinn bar heitið Fræðsla og fjör á Akureyri og stóð hann fyllilega undir nafni.

Fyrri hluti dagsins fór í fræðslu og kynningar en seinni partinn var farið í vettvangsheimsóknir þar sem starfsemi náms- og starfsráðgjafa fyrir norðan var kynnt. Um kvöldið var svo boðið til sameiginlegs kvöldverðar í Menningarmiðstöðinni Hof. Félagsmenn áttu þennan dag gott samtal um náms- og starfsráðgjöf í víðu samhengi, t.a.m. um samfélagslegt gildi hennar og mikilvægi þess að hún haldi áfram að þróast og þroskast í takt við tímann.

Umræðan fyrir 30 árum:

… starfslýsing fyrir náms- og starfsráðgjafa, stefna ráðgjafar, kjaramál o.fl. ...og er enn í umræðu

Útskriftarnemar í gegnum árin

Útskrift 2003
Útskrift 1999

Félagsgjöldin

Árið 1981 voru félagsgjöldin 100 krónur.

Árið 1989 voru félagsgjöldin 1000 krónur.

Árið 1993 voru félagsgjöldin 3000 krónur.

Árið 2016 eru félagsgjöldin 4500 krónur.

Formenn frá upphafi

Þorkell Steinar Ellertsson 1981-1983

Guðrún Hannesdóttir 1983-1985

Ásta K. Ragnarsdóttir 1985-1986

Guðríður Sigurðardóttir 1986-1987

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir 1987-1989

Einar Sveinn Árnason 1989-1990

Helga Sigurjónsdóttir 1990-1993

Guðrún Sederholm 1993-1995

Sigrún Ágústsdóttir 1995-1997

Anna Sigurðardóttir 1997-1999

Arnfríður Ólafsdóttir 1999-2001

Svandís Ingimundardóttir 2001-2004

Jónína Kárdal 2004-2006

Ágústa Elín Ingþórsdóttir 2006-2009

Björg Kristjánsdóttir 2009-2013

Helga Helgadóttir 2013-2015

Ingibjörg Kristinsdóttir 2015-

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2015

Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar, Félag náms- og starfsráðgjafa, Norræna tengslanetið um menntun fullorðinna og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins héldu ráðstefnu með yfirskriftinni Færni til framtíðar - mótun starfsferils föstudaginn 30. nóvember 2015 og var hún hlut af árlegum Degi náms- og starfsráðgjafar. Í frétt á heimasíðu Evrópumiðstöðvarinnar má sjá dagskrá og myndir frá deginum.

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2016

Að þessu sinni var ákveðið að halda afmælishátíð í tilefni þess að Félag náms- og starfsráðgjafa varð 35 ára á árinu og námsbrautin fagnaði 25 ára afmæli og dagur náms- og starfsráðgjafar 10 ára afmæli. Yfirskrift dagsins var Náms- og starfsráðgjöf í 35 ár og fólki var boðið um borð í tímavél þar sem ferðast var aftur til fortíðar, staldrað við í nútíðinni og skyggnst inn í framtíðina. Afmælishátíðin fór fram á Icelandair Hótel Reykavík Natura þann 4. nóvember og mættu um hundrað náms- og starfsráðgjafar. Fundarstjóri var Inga Berg Gísladóttir náms- og starfsráðgjafi í Háskóla Íslands.

Ingibjörg Kristinsdóttir formaður félagsins setti daginn og í kjölfarið sagði Jónína Kárdal okkur frá fyrsta formlega degi náms- og starfsráðgjafar á líflegan hátt og skoraði á félagsmenn að halda viku náms- og starfsráðgjafar árið 2017. Þar sem við vorum í afmælisveislu þótti viðeigandi að líta yfir farinn veg og fór Guðbjörg Vilhjálmsdóttir yfir sögu náms- og starfsráðgjafar á Íslandi sem hún hefur skráð. Einnig settum við upp tímalínu þar sem fyrrum formenn félagsins röðuðu sér upp og fóru yfir það helsta sem stóð upp úr í þeirra tíð.

Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur var veitt heiðursviðurkenning Félags náms-og starfsráðgjafa fyrir störf sín í þágu greinarinnar.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Maríanna Friðjónsdóttir sérfræðingur og ráðgjafi um samfélagsmiðla fjallaði um ímynd og sýnileika almennt en sérstaklega á samfélagsmiðlum. Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir ritstjóri samfélagsmiðla hjá RÚV fjallaði í framhaldinu um notkun samfélagsmiðla og hvernig náms- og starfsráðgjafar geta notað þá í störfum sínum og í markaðssetningu.

Að loknum hádegisverði kynnti Sif Einarsdóttir nýjan tölvuleik í náms- og starfsfræðslu. Útgáfa leiksins er fyrirhuguð um áramótin og verður fróðlegt að prufa hann.

Eftirmiðdagurinn var notaður í hópavinnu þar sem þátttakendur spreyttu sig á fimm umræðuefnum sem tengdust efni dagsins. Sem dæmi má nefna: Hvaða samfélagsmiðlar henta best mismunandi ráðþegahópum og hvernig? Hverjir eru kostir og gallar samfélagsmiðla í ráðgjöf? Hugmyndir að slagorðum fyrir náms- og starfsráðgjafa? Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram sem félagið ætlar sér að nýta í náinni framtíð.

Elín Thorarensen sagði frá Íslandsmóti iðn- og verkgreina og stóru framhaldsskólakynningunni sem haldin verður í Laugardalshöll 15. - 18. mars 2017 en náms- og starfsráðgjafar spila þar stórt hlutverk í að kynna námsframboð fyrir grunnskólanemendum. Síðast en ekki síst skoraði Jónína Kárdal FNS á að halda næst Viku náms- og starfsráðgjafar í stað Dag náms- og starfsráðgjafar.

Ráðstefnuferð til Madrid

13. nóvember sl. lagði stór hópur náms- og starfsráðgjafa land undir fót. Tilefnið var alþjóðleg ráðstefna IAEVG sem að þessu sinni var haldin í Madrid. Dagskráin hófst á mánudegi með skólaheimsóknum og í kjölfarið fylgdi viðamikil dagskrá þar sem boðið var uppá fyrirlestra, vinnustofur og málstofur.

Það voru margir flottir fræðimenn sem tóku þátt í ráðstefnunni og má þar sérstaklega nefna aðalfyrirlesarana Jane Goodman, Mary McMahon, Barrie A. Irving og Marius Martínez. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir og Torfi Tulinius voru fulltrúar Íslands í fræðimannahópnum og fluttu þau mjög áhugaverð erindi. Eins áttu nágrannar okkar á Norðurlöndum nokkra fulltrúa og má m.a. nefna Peter Plant, Rie Thomsen, Bo Klindt Poulsen og Raimo Vuorinen.

Jane Goodman, Mary McMahon og Peter Plant

Næsta alþjóðlega ráðstefna IAEVG verður haldin í Mexíkó á næsta ári og í Svíþjóð árið 2018. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.

Stjórn FNS 2016-2017 þakkar fyrir sig

Kristín Birna, Soffía, Helga, Margrét, Ingibjörg og Unnur (á myndina vantar Þuríði Ósk)
NextPrevious

Report Abuse

If you feel that this video content violates the Adobe Terms of Use, you may report this content by filling out this quick form.

To report a Copyright Violation, please follow Section 17 in the Terms of Use.